LAMDI Í HLUTI EINS OG PAPPAKASSA OG KRUKKUR

0

Tónlistarkonan MIMRA eða María Magnúsdóttir eins og hún heitir réttu nafni var að senda frá sér nýtt lag sem ber heitið „Mushroom Cloud.” Lagið er tekið af væntanlegri plötu Sinking Island en lagið er búið að ganga í gegnum allskonar breytingar. Innblástur lagsins er fenginn frá t.d. Tune-Yards og Lauru Mvula en Mimra segir að innblásturinn kemur allstaðar frá!

Albumm.is náði tali af Mimru og svaraði hún nokkrum spurningum um lagið og plötuna svo sumt sé nefnt.


Er lagið búið að vera lengi í vinnslu?

Já það má segja það. Mushroom Cloud var lengi í vinnslu þar sem ég samdi það upphaflega sem stórt lokalag fyrir útskriftartónleika, þá fyrir hljómsveit sem samanstóð af rythmasveit, strengjakvartett, blásurum, hörpuleikara og bakröddum. Þegar ég tók síðan lagið upp í fyrra klæddi ég það í nokkuð nýjan búning með því að vinna það með allskonar litlum upptökum af mér að berja í hluti eins og pappakassa og krukkur, auk þess sem ég bætti inn vocoder og fleira raftónlistar-nammi. Það er því mjög góð tilfinning að gefa lagið út núna í upphafi Karolina Fund söfnuninnar okkar.

Hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Í þessu lagi langaði mig sérstaklega að ná fram gleði, kæruleysi og eltingaleiks-tilfinningu. Með það að leiðarljósi sótti ég mikinn innblástur í tónlist Tune-Yards og Laura Mvula. Innblástur kemur hins vegar alls staðar að fyrir mig. Hugmyndin á bak við Mushroom Cloud var að mig langaði að semja um fjölskylduna mína, hversu allt of hátt við hlæjum miðað við meðalmanninn og hvernig við systkinin lékum okkur í fjörunni sem börn.

Lýstu tónlistinni þinni í fimm orðum:

Margslungin, litrík, dimm, einlæg og stórbrotin

Þú ert að senda frá þér plötu í Nóvember, hvað er hún búin að vera lengi í vinnslu og er hún frábrugðin fyrri verkum?

Já, ég gef út plötuna Sinking Island í nóvember. Þetta verður fyrsta plata mín sem MIMRA og fyrsta platan þar sem ég sá um upptökur og hljóðvinnslu. Áður kom frá mér platan Not Your Housewife árið 2009 sem var sálarskotin poppplata og svo stuttskífa árið 2015 með electro-pop hljómsveitinni Early Late Twenties. Sinking Island inniheldur 12 lög og hefur verið frekar lengi í vinnslu. Ég hóf að semja músík sem MIMRA fyrir um þremur árum og tók síðan upp og pródúsaði plötuna á síðasta ári. Þetta efni er frekar frábrugðið fyrri verkum að því leiti að ég blanda saman hljóðheimi orchestral og elektró popps í lögunum mínum og útkoman er eitthvað nýtt og fallegt sem ég kalla electro-acoustic folk pop. Ég hlakka mjög til að deila plötunni með ykkur!

Eitthvað að lokum?

Já, takk fyrir mig! Til að komast í gott skap er tilvalið að hlusta á lagið mitt Mushroom Cloud og endilega kíkið á Karolina-Fund.

Skrifaðu ummæli