„Laglínur og textabrot koma til mín alveg óumbeðið”

0

Tónlistarkonan Brynja Bjarnadóttir var að senda frá sér brakandi ferskt lag og myndband sem ber heitið „Liar.” Brynja byrjaði að semja lög árið 2011 en hún kenndi sér sjálf á gítar þegar hún var stödd í Noregi. Brynja samdi lagið stuttu eftir að hún kom frá Noregi en upptökuferlið var ansi langt þó að söngurinn hafi verið skotheldur í fyrstu töku. Nóg er um að vera hjá Brynju en samhliða skólanum er hún að læra að taka upp tónlist og á hún all mörg lög í pokahorninu.

Albumm.is náði tali af Brynju og svaraði hún nokkrum spurningum um lagið, myndbandið og auðvitað tónlistina!


Hvenær byrjaðir þú að grúska í tónlist og hvernig kom það til?

Ég byrjaði að semja lög og spila á gítar árið 2011 þegar ég var í götuleikhúsi í Noregi. Þar sem götuleikhúsið var á mjög afskekktum stað og lítið um að vera í nágrenninu ákvað ég að nýta tímann til að læra á gítar þar sem ég hafði oft frítíma á kvöldin. Tíminn í götuleikhúsinu hafði mikil áhrif á mig, Ég lærði svo margt nýtt og kynntist nýju skapandi fólki og eftir að ég kom aftur heim til Íslands fór ég að semja, það var eiginlega eins og lögin streymdu til mín. Það sumar samdi ég mikið af lögum og meðal annars þetta sem ég er að gefa út.

Er lagið búið að vera lengi í vinnslu og hvernig verða lögin til?

Upptökuferlið tók langan tíma. Ég átti þetta lag alltaf til á lager og mér fannst að það ætti skilið almennilega upptöku svo ég sótti um styrk hjá hljóðritasjóð Rannís fyrir verkefninu sem ég fékk. Ég hef tekið upp nokkur af lögunum mínum áður en í þeim var gítarinn alltaf uppistaðan í laginu. Fyrir þetta lag langaði mig að breyta til en vissi ekki hvar ég ætti að byrja svo ég fékk Baldur Hjörleifsson til liðs við mig til þess að hjálpa mér að útsetja lagið. Upptökur hófust hjá okkur í desember árið 2017 og gekk það vel, söng tökurnar voru negldar strax í fyrsta “sessioni” og megnið af hljóðheiminum líka. Það var þó partur í laginu sem ég var alltaf óviss með og ég fann að ég hafði ekki næga kunnáttu til að fikta mig áfram og prófa hugmyndir sem ég var með. Ég fór að prófa að hitta tónlistarfólk sjálf og taka það upp og enduðu nokkrar af þeim tökum í laginu. Mig þyrsti í að læra meira svo þess vegna sótti ég um í hljóðupptöku námi í skólanum SAE í Amsterdam. Þar er ég eina stelpan í stórum bekk. 

Hvað er það við tónlist sem heillar þig og hverskonar tónlist ratar oftast í þín eyru?

Það er svo margt sem heillar við tónlist. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er tilfinningin sem maður fær við skapa eitthvað nýtt, það er stundum eins og laglínur eða texta brot komi til manns alveg óumbeðið. Ég held að fleira tónlistafólk tengi við það að stundum er eins og þú semjir ekki lögin þín sjálf/ur heldur er eins og einhver hvísli þeim að þér.

 

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Það sem tekur við núna er bara skólinn, ég er á fullu að læra það hvernig á að taka upp og framtíðin mun leiða í ljós hvort ég nýti þá vitneskju til þess að auðvelda mér upptökur á minni eigin tónlist eða hvort ég vilji fara út í það að taka upp annað tónlistarfólk. Það mætti alveg bæta við fleiri kvenkyns upptökustjórum í þennan heim. Það kemur í ljós. Akkúrat núna er ég með nokkur lög sem mig langar að taka upp samhliða náminu mínu.

Skrifaðu ummæli