„Lagið splundraði bandinu í tvennt”

0

Casio Fatso er að boða endurkomu í rokksenu Íslands með nýju efni! Út er komið lagið „It’s measured in tears” sem er rokklag með fullt af gíturum og háværum trommum! Lag var samið fyrir um 7 árum en verið í alvöru vinnslu í tæplega tvö ár. Síðustu 8 mánuðir hafa farið í hljóðblöndun og masteringu.

Að sögn Sigursteins hefur lagið í orðsins fyllstu merkingu splundrað bandinu í tvennt þar sem ágreiningur myndaðist í kringum vinnsluna sem ekki náði að útkljá. Ákveðið var að forsprakki og lagahöfundur Casio Fatso, Sigursteinn, ásamt Helga trommara myndu halda áfram undir merkjum Casio Fatso.

 

Á næstu vikum og vel inn í næsta ár munu lög halda áfram að koma út og eru meðlimir bandsins spenntir fyrir framhaldinu. Eins og er hafa þeir ekki ákveðið neitt tónleikahald enda í miðri endurskipulagingu bandsins. Það mun þó á endanum leysast og seinni part næsta árs er stefnt á að safna öllum útgefnum lögum saman á eina plötu og jafnvel halda útgáfutónleika.

Markmiðið núna er bara að dæla út lögum og gera það sem bönd eiga að gera meira af. Semja, taka upp og gefa út. Án tafar. Af nógu er að taka úr smiðju Casio Fatso og allir brunnar fullir.

Bandið var stofnað af Sigursteini og Hirti (fyrrv. trommara og bassaleikara) snemma árið 2012. Markmiðið var að spila og gefa út rokklög sem sá fyrrnefndi semur og byggja upp keppnishæft band sem myndi sóma sig vel á íslensku senunni. Fyrstu árin fóru hins vegar í að finna rétta fólkið með í verkefnið og var það ekki fyrr en árið 2015 sem fyrsta plata sveitarinnar Controlling the world from my bed leit dagsins ljós. Hún kom út við mikið lof en leið fyrir reynsluleysi og tímaskort.

Önnur plata Casio Fatso kom út árið 2017 og ber heitið Echoes of the nineties og vakti mikla lukku og ekki síst erlendis þar sem platan og nokkur lög voru á topplistum í Ástralíu. „It’s measured in tears” markar svo nýtt upphaf bandsins og rokkunnendur eru hvattir til að hlusta á lagið á spotify, youtube og á fleiri stöðum þar sem lagið birtist. Að venju hafa þeir gert myndband við lagið en við öll útgefin lög Casio Fatso má finna samnefnt myndband.

Einnig er hægt að hlýða á lagið á Spotify

Skrifaðu ummæli