LABEL FOCUS: LAGAFFE TALES

0

Ljosmynd1Lagaffe Tales er sjálfstætt starfandi plötuútgáfa sem þeir félagarnir Viktor Birgisson og Jónbjörn Finnbogason hafa rekið frá árinu 2012. Þeir hafa verið virkir bæði sem plötusnúðar og producerar í íslensku house senunni í Reykjavík síðustu ár. Albumm kíkti í heimabakaðar smákökur og spjall til Viktors.


 

Hvenær var Lagaffe Tales útgáfan stofnuð?

Þetta hófst allt saman árið 2012 en við Jónbjörn byrjuðum fyrst með labelið Free Rotation records. Nema hvað, það kom síðan í ljós að það var tónlistarhátíð á Englandi sem hét FreeRotation festival. Ég vissi svosem af henni en datt ekki í hug að það yrði eins mikið vesen og það varð. Við fengum fljótt tölvupóst frá þeim þar sem þeir sögðu okkur vera að brjóta á höfundarétti vegna nafnsins og hótuðu okkur lögsókn. Þeir póstuðu á Facebook síðuna sína link á labelið okkar og sögðust ekkert hafa með þetta að gera. Út frá því fengum við fengum sirka 40 pósta frá dyggum aðdáendum FreeRotation festivalsins sem drulluðu yfir okkur. Þeir vildu meina að við værum að stela nafninu til þess eins að fá meira fylgi. Við vorum ekki búnir að hugsa þetta svona langt og ætlunin var aldrei að ræna fylgi frá einhverju festivali á Englandi. Okkur var soldið brugðið og ákváðum að setja allt á hold yfir sumarið og höfðum samband við þá og sögðum að við værum ekki að fara gefa meira út á þessu nafni. Þá hófst bara hugmyndavinnan aftur um haustið.

Hvernig kom þá nýja nafnið til?

Þegar við Jónbjörn vorum fyrst að spila saman þá kölluðum við okkur Gaston Lagaffe sem er franska nafnið á teiknimyndafígúrunni Viggó Viðutan. Ég var kallaður Viggó þegar ég var yngri og get verið mjög viðutan. Jónbjörn pikkaði þetta upp og vildi að við myndum hafa það eitthvað í kringum þetta nafn. Í stað þess að hafa það týpískt líkt og Lagaffe records þá ákváðum við að hafa það Lagaffe Tales, svona eins og hver smáskífa eigi sér sína sögu og var fyrsta útgáfan undir nafninu Lagaffe Tales í október 2012.

Hafið þið báðir verið í tónlist lengi, var það alltaf house tónlist eða er það nýtilkomið?

Nei svo sem ekki, ég var mikið í allskonar tónlist þegar ég var yngri og fékk síðan tækifæri til að DJ-a í 10. bekk grunnskóla. Þá var maður með tvo Walkman CD gæja með geisladiskunum sem við skrifuðum. En það má segja að það var þá sem kveikjan að danstónlist varð. Sjálfur er ég búinn að fara í gegnum margar tónlistarstefnur en maður bara stoppar og finnur nokkurn vegin sína hillu. Ég og Jónbjörn kynntumst í kringum 2009 og þá átti hann heima á Ísafirði en við vorum báðir mjög virkir á síðunni hugi.is/danstónlist. Þar var verið að selja allskonar græjur og ég var nýbúinn að kaupa mér nýjan mixer og ætlaði að selja þann gamla og endaði á því að selja Jónibirni minn. Út frá því hafði hann samband við mig þegar hann flutti hingað suður til að fara í skóla og við fundum að okkur langaði til að gera eitthvað saman þar sem við vorum með sameiginlegan tónlistarsmekk.

Ljosmynd2

Hvernig fóruð þið frá því að gera mix heima yfir í að spila á börunum? Var erfitt að koma sér inn í DJ senuna í Reykjavík?

Það getur verið rosalega erfitt að brjótast inn í þessa senu í Reykjavík og sérstaklega þar sem við vorum báðir þannig séð ekki með nein sambönd. Svo settum við okkur bara markmið: að fá að spila á Kaffibarnum. Tónlistin sem var verið að spila þar var algjörlega eitthvað sem við tengdum við en Kaffibarinn er ekki beint auðveldasta venue-ið til að komast inná, svo við byrjuðum á botninum og sóttum um vinnu í glösunum. Við unnum saman á sömu vöktunum í ár og enduðum á því að kynnast öllum þeim sem tengdust Kaffibarnum og þeim sem voru að spila þarna reglulega. Þá vorum við líka komnir með algjöra innsýn inn í það hvað virkaði á staðnum og búnir að setja saman svokallaðan „Kaffibars playlista” og „Kaffibarshittarar”. Þannig það má segja að við höfum unnið okkar heimavinnu, við vorum þarna flestar helgar og fengum lítið sem ekkert útborgað. Við vorum líka mjög duglegir að bögga Árna Einar sem sér um bókanirnar á Kaffibarnum og skrifuðum fyrir hann geisladiska með mixum. Svo gerðist það eitt kvöldið að hann bauð mér að taka með sér laugardag back to back. Þar með var komið samþykki og við Jónbjörn fengum út frá því slottið okkar sem voru fimmtudagsgigg á Kaffibarnum. En varðandi það að komast að, þá verður fólk að leggja sig aðeins fram við það að kynnast þeim sem að eru í senunni. Því þú getur ekki hoppað inn í þetta einn tveir og bingó. Það er talað um að þetta sé svo mikill klíkuskapur en þú verður  bara að kynnast fólkinu. Þú getur ekki bara sent eitt email og búist við því að fá gigg. Ég hélt að það væri leiðin en um leið og ég byrjaði að vinna á Kaffibarnum þá fann ég að þetta virkaði ekki alveg svona. Þegar ég var með DJ námskeiðin mín þá sagði ég þeim sem ætluðu sér að fara eitthvað lengra með þetta að þeir þyrftu að vinna sína heimavinnu líka, ekki bara treysta á einhver e-mail.

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að stofna plötuútgáfu?

Ég bara veit það ekki. Okkur vantaði ábyggilega bara eitthvað challenge. Að vera með útgáfufyrirtæki er líka bara ákveðið portfolio. Í dag ertu ekki að fá mikið borgað fyrir tónlistina þína og í rauninni erum við ekki að græða neitt á þessu og erum að koma út í mínus ef eitthvað er. En þetta er samt svona ávísun á það að kannski fáum við gigg einhvers staðar annars staðar út frá því að vera með label, því það nenna því ekkert allir að vera með label. Það er ákveðið recognition. Líka það að það er ekkert rosalega mikið af house tónlist að koma frá Íslandi, þannig það er sérstaða að vera með label hér. Það er mikið af erlendu fólki sem fílar tónlistina og hefur samband við okkur t.d. þegar það kemur til landsins. Þannig það að vera með label getur skapað gott tengslanet við umheiminn. Til dæmis þá gerði ég remix af lagi með íslendingnum Moff & Tarkin sem Lagaffe Tales gefur út sem einhver gæi frá Suður-Afríku pikkaði upp og spilaði í útvarpsþætti í Jóhannesarborg. Þá fékk ég allt í einu 15 vinabeiðnir frá fólki í Jóhannesarborg sem fannst það geðveikt. Út frá því fékk ég fleiri og fleiri suður-afrískar vinabeðinir og í dag held ég að sé með um 50 manns þaðan á Facebookinu mínu. Ég fékk reyndar tvö boð um að fara þangað að spila og það átti að vera núna í september en það gekk því miður ekki upp.

Ljosmynd3

En hvernig er landsbyggðin að taka í house tónlistina?

Jónbjörn er búinn að vera sjúklega duglegur að byggja upp ákveðna tónlistarmenningu á Ísafirði og var með kvöld í Edinborgarhúsinu sem hétu Back and Forth. Óli Ofur kom með hljóðkerfi og Dj Jónfri kom þarna og spilaði eina Verslunarmannahelgina. Þegar við Jónbjörn vorum fyrst að kynnast fékk hann mig til fljúga til Ísafjarðar og spila með honum þarna eitt kvöld. En þetta var eiginlega algjört flopp því fólkið var ekkert að fíla þetta en viðhorfið hefur breyst gagnvart raftónlist og í dag er vel hægt að halda góð kvöld þar. Jónbjörn spilar mikið á Ísafirði á sumrin og svo höfum við báðir séð um tónlistina fyrir mýrarboltann síðstu þrjú ár.

Varðandi tónlistina sjálfa, þá skynja ég tónlistina ykkar aðallega sem deephouse. Hvað finnst þér um þessa skilgreiningu?

Sko, í dag er þetta náttúrlega ótrúlega vítt hugtak –deephouse. En okkur langar til að vera rosalega klisjulegir og segja að þetta sé soldið underground. Fyrst og fremst út af því að okkur finnst við vera að gefa út góða tónlist sem ekki það margir vita af. En við vorum alveg með ákveðna ímynd til að byrja með en svo breytist náttúrlega allt með tímanum, nú treystum við frekar á það að gefa út góða artista heldur en að vera eitthvað picky. En við höfum samt alveg fengið demos sem við teljum að henti ekki fyrir útgáfuna. Þetta er auðvitað aðallega tónlist sem við Jónbjörn fílum en það er auðvitað ákveðinn stíll sem við fylgjum.

Hvernig er best að nálgast tónlistina sem þið gefið út? Hafið þið eitthvað hugsað um að gefa út á vínyl?

Varðandi vínylin, þá nei við höfum ekki komist svo langt að geta gefið út á vínyl. Nú erum við báðir í skóla og það er alltof mikill startkostnaður við það að fara setja út vínyl. En um leið er það góð fjárfesting því ef þú gefur út á vínyl þá hugsar fólk að þú sért virkilega að leggja eitthvað í þetta og út frá því virðist að menn fái meira fylgi. Þá eru líka allt aðrir artistar til í að gefa út, fyrst það er gefið út á vínyl. En það er alveg markmið fyrir framtíðina. Núna gefum við þetta út digital á netinu á þeim helstu sölusíðum sem plötusnúðar sækja s.s. Beatport, Juno og Traxsource.

Er eitthvað á döfinni? Nýjar útgáfur á leiðinni?

Já, ég er nýkominn heim frá Uppsala í Svíþjóð en ég var að spila á háskólabar þar. Sænskur félagi minn var að halda þetta kvöld og fékk nægilega mikinn pening til að kaupa miða fyrir mig út og gistingu. Það gekk ótrúlega vel, sveitt og pakkað! Gaman að segja frá því, en við kynntumst inná Faktory þegar ég var að spila þar en hann kom og kynnti sig og sagðist líka vera plötusnúður þannig ég leyfði honum að taka nokkrar skiptingar. Síðan þá er ég búin að fara tvisvar út til Svíþjóðar að spila, svo þetta er algjört karma. En hvað varðar úgáfuna þá er að koma út fjögurra laga svokölluð sampler plata sem inniheldur fjögur lög með fjórum mismunandi artistum þann 25. nóvember. Ég og Jónbjörn erum með eitt lag undir Lagaffe Tales og svo eru það Introbeats, Magnoose og Moff & Tarkin sem allir hafa komið sterkt inn í íslensku house senuna á síðustu árum.

Ljosmynd4

Höfundur: Hólmfríður Sunna Sigurlauagadóttir Guðmundsdóttir.

Comments are closed.