KVINTETT ÁSGEIRS J. ÁSGEIRSSONAR Á MÚLANUM

0

Á næstu tónleikum vordagskrár Múlans, miðvikudaginn 5. apríl á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu, kemur fram kvintett gítarleikarans Ásgeirs J. Ásgeirssonar. Leikin verða lög af sólóplötum hans, Passing Through og Tríó ásamt diskum sem hann hefur gert í samstarfi við aðra á undanförnum 15 árum.

Á Tríó samdi Ásgeir tónlist fyrir fimm mismunandi tríó og hefur diskurinn fengið mjög jákvæða dóma og verður hluti efniskrárinnar á tónleikunum af þeim disk í nýjum útgáfum. Jazz, funk, bossanova og popp. Með Ásgeiri sem leikur á gítar og oud koma fram trompetleikarinn Snorri Sigurðarson, Agnar Már Magnússon leikur á píanó og orgel, bassaleikarinn Gunnar Hrafnsson og Erik Qvick sem leikur trommur og slagverk.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is

Spennandi vordagskrá Jazzklúbbsins Múlans heldur síðan áfram á miðvikudagskvöldum á Björtuloftum, Hörpu með 16 tónleikum til 17. maí. Flestir af helstu jazzleikurum þjóðarinnar koma fram í dagskránni, m.a. Björn Thoroddsen, Gunnar Þórðarson, Eyþór Gunnarsson, Tómas R. Einarsson, Sigurður Flosason, Einar Scheving, Þorgrímur Jónsson, Sunna Gunnlaugs, Erik Qvick, Ásgeir Ásgeirsson, Andrés Þór Gunnlaugsson, Scott McLemore, Ólafur Jónsson, Kjartan Valdemarsson, Haukur Gröndal og Jóel Pálsson og fleiri og fleiri.

Múlinn er að hefja sitt 21. starfsár en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg, Tónlistarsjóðnum og SUT sjóðnum og er í samstarfi við Heims-tónlistarklúbbinn og Hörpu.

Skrifaðu ummæli