„Kvíðinn kom í veg fyrir að verkefnið kláraðist“

0

Fyrir skömmu hrinti Eyvindur Karlsson af stað hópfjármögnun á Karolina Fund, til að gefa út sína fyrstu plötu. Eyvindur fremur gjarnan tónlist undir listamannsnafninu One Bad Day. Þessi plata hefur átt sér langan aðdraganda, eða um áratug, en hefur setið á hakanum vegna kvíðaröskunar. Kvíðinn hefur fram til þessa komið í veg fyrir að verkefnið klárist, en nú verður ekki aftur snúið.

Eftir að hafa gengið með plötuna í maganum um árabil fékk Eyvindur til liðs við sig góða vini og samstarfsmenn til að taka upp vel valin lög úr lagasafni sem hefur orðið til síðasta áratuginn, en hljóðfæraleikur og bakraddir á plötunni eru, auk Eyvindar, í höndum Halls Guðmundssonar bassaleikara, sem meðal annars hefur gert garðinn frægan með Varsjárbandalaginu, Hjalta Stefáns Kristinssonar, fyrrum liðsmanns hljómsveitarinnar Hrauns, Símonar Hjaltasonar gítarleikara, sem var með Eyvindi í dúettinum Misery Loves Company og fer nú fyrir rokksveitinni Kingkiller, og Guðjóns Guðjónssonar, trommuleikara Q4U og þungarokkssveitarinnar Óværu.

Platan ber heitið A Bottle Full of Dreams og er tónlistin þjóðlagarokk í anda Tom Waits, Nick Cave og Neil Young. Hljóðheimurinn ber sterk einkenni áhrifavalda tónskáldsins, en að sama skapi er undirleikurinn skemmtilega fjölbreyttur, enda að miklu leyti í höndum manna sem fást við tónlist af öðrum toga. Útkoman er skemmtileg samsuða svokallaðrar Americana tónlistar, eða bandarískrar þjóðlagatónlistar úr ýmsum áttum, og áhrifa úr rokkheiminum.

Eyvindur hefur áður getið sér gott orð fyrir leikhústónlist, nú síðast fyrir söngleikinn, Í skugga Sveins, þar sem hann fór einnig með eitt aðalhlutverkanna, en tónlistin í verkinu hlaut sérstakt lof. Hann hefur auk þess fengist við ritstörf, uppistand, þýðingar og leikstjórn, svo fátt eitt sé nefnt.

Fjármögnunin er að finna hér.

Skrifaðu ummæli