Kvartettinn Kjarr spilar á Múlanum

0
Á næstu tónleikum vordagskrár Jazzklúbbsins Múlans, á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu, miðvikudaginn 7. mars kemur fram kvartettinn Kjarr. Kvartettinn hefur spilað saman allskyns tónlist á undanförnum árum. Að þessu sinni fá þeir skemmtilegan gest í heimsókn trompetleikarann Jesper Blæsbjerg frá Danmörku. Hljóðfæraskipan kvartettsins myndar ljúfan hljóðheim og spilastíllinn einkennist af lýrískum og skapandi spuna. Leiknar verða djassperlur eftir höfunda á borð við Monk, Hancock, Jarrett og Swallow í bland við frumsamið efni. Ásamt Jesper Blæsbjerg koma fram gítarleikarinn Jakob Hagedorn Olsen, Guðjón Steinar Þorláksson sem leikur á bassa og trommuleikarinn Jón Óskar Jónsson.
 
Alls verða sextán spennandi tónleikar á dagskránni flesta miðvikudaga fram til 23. maí. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2500, 1500 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is
Múlinn er að hefja sitt 22. starfsár en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg, Tónlistarsjóðnum og SUT sjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Skrifaðu ummæli