KVARTETT JÓELS PÁLSSONAR Á MÚLANUM 11. MAÍ

0
Jóel Pálsson

Þá er komið að loka tónleikum vordagskrár Jazzklúbbsins Múlans að þessu sinni, miðvikudaginn 11. maí á Björtuloftum í Hörpu. Á tónleikunum mætir saxófónleikarinn Jóel Pálsson til leiks með akústískann kvartett sinn sem skipaður er samstarfsmönnum til margra ára. Þeir félagar tína til nokkur uppáhaldslög sín og leggja sem grunn að óvissuferð kvöldsins. Ásamt Jóel koma fram píanóleikarinn Eyþór Gunnarsson, bassaleikarinn Þórður Högnason og Einar Scheving sem leikur á trommur. Múlinn snýr síðan aftur með glæsilega sumardagskrá sem hefst um miðjan júní, nánar síðar.

Múlinn er á sínu 19. starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is

Comments are closed.