KUBIK KVINTETT Á MÚLANUM

0

Kúbik Kvintett

Næstu tónleikar Jazzklúbbsins Múlans miðvikudaginn 9. mars á Björtuloftum í Hörpu verða í samvinnu við Heimstónlistarklúbbinn. Múlinn og Heimstónlistarklúbburinn hafa átt gott samstarf undanfarin ár og hafa saman staðið fyrir skemmtilegum og fjölbreyttum tónleikum í Hörpu. Að þessu sinni mun hljómsveitin Kúbik kvintett leika tónlist eftir meðlimi hljómsveitarinnar. Meðlimir sækja innblástur í tónlistararf Kúbu og munu þeir bjóðar upp á frískandi kokteil af salsa og angurværum bolero. Kúbik kvintett skipa Daníel Helgason á gítar, Helgi R. Heiðarsson á tenór saxófón, Jón Óskar Jónsson og Kristofer Rodriguez Svönuson á slagverk og Tómas R. Einarsson á kontrabassa.

Spennandi vordagskrá Jazzklúbbsins Múlans heldur síðan áfram með 16 tónleikum sem fram fara flest miðvikudagskvöld til 11. maí á Björtuloftum, Hörpu. Múlinn er á sínu 19. starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu. 

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is

Comments are closed.