KRISTJANA STEFÁNS SENDIR FRÁ SÉR PLÖTUNA ÓFELÍA

0

Kristjana Stefáns

Platan Ófelía hefur verið á teikniborðinu í mörg ár en aldrei verið rétti tíminn fyrr en núna. Tónlistin er öll eftir Kristjönu og á hún einnig helminginn af textunum en hinn helmingin á Bergur Þór Ingólfsson, leikari og leikstjóri.

„Við Bergur höfum unnið mikið saman við að búa til leiksýningar undanfarin ár og heillaðist ég mikið af Ófelíu sem er persóna úr einum af sýningunum okkar. Hún þarf að glíma við erfiða hluti svo sem vanrækslu og rof af ýmsu tagi. Þannig að platan er í senn ljóðræn og melankólísk“ – Kristjana Stefáns.

Með Kristjönu er einvala lið af stórkostlegum listamönnum sem eiga stóran part í að gera plötuna einstaka í hennar huga. Platan er í senn mjög persónuleg og byrjun á einhverju glænýju fyrir hana þar sem hún er Adult Alternative/Contemporary pop í stað þess að vera jazz/blues sem hún er svo vön að eiga við.

„Það kom engin annar til greina en virtúósinn Daði Birgisson þegar það kom að því að vinna plötuna en saman tókum við listrænar ákvarðanir er varðar hljóm og útsetningar en hann á heiðurinn af upptökunum og hljóðblönduninni“ – Kristjana Stefáns.

Bambalo Cover

Kristjana Stefáns hefur verið leiðandi tónlistarkona í íslenskri jazz og spunatónlist um árabil. Vorið 2000 lauk hún með láði námi í jazzsöng frá Konunglega Listaháskólanum í Haag í Hollandi. Hún hefur síðan hljóðritað bæði í eigin nafni og sem gestasöngvari og komið reglulega fram í útvarpi, sjónvarpi og á tónleikum, bæði hérlendis og erlendis. Fyrsta geislaplata Kristjönu, Ég verð heima um jólin, með Kvartett Kristjönu Stefáns kom út 1996 en þar eru engir ómerkari gestasöngvarar en Páll Óskar Hjálmtýsson og Emilíana Torrini.

kristjana-1

Kristjana starfar reglulega með Stórsveit Reykjavíkur og hefur unnið með stjórnendunum á borð við Daniel Nolgard og Ole Kock Hansen. Hún starfar einnig reglulega með Svavari Knút, Daða Birgissyni, Ragnheiði Gröndal og Kjartani Valdemarssyni. Kristjana hefur nokkrum sinnum verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir plötur sínar sem telja langt á annan tug. Undanfarin ár hefur Kristjana unnið sem tónskáld og ljáð trúðnum Bellu líf í Borgarleikhúsinu í Reykjavík og þar hefur hún unnið aðalega með Bergi Þór Ingólfssyni í að frumsemja ný leikverk. Kristjana leikur, samdi tónlistina og er tónlistarstjóri í sýningunum Jesús litli, sem vann Grímuverðlaunin sem sýning og handrit ársins árið 2009 og er enn í sýningu, Hamlet litli, sem vann Grímuna sem Barnasýning ársins 2013 og í Sókrates 2015. Kristjana var líka tilnefnd til Grímunar fyrir tónlist sína í Jésús Litla. Einnig tónlistarstýrði Kristjana sýningunum Dauðasyndirnar árið 2008 og Galdrakarlinum í Oz árið 2011 í Borgarleikhúsinu. Kristjana samdi tónlistina í söngleiknum Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason í leikgerðar Bergs Þórs Ingólfssonar, sýnd í Borgarleikhúsinu 2016.

Daði Birgisson

Daði Birgisson

Daði Birgisson hefur starfað sem upptökustjóri, multi hljóðfæraleikari, tónskáld, hljóðblandari og útsetjari síðastliðin 19 ár. Hann hlaut íslensku tónlistarverðlaunin 2015 fyrir hljómplötu ársins og lag ársins með hljómsveit sinni Mono Town. Hann samdi tónlistina í heimildarmyndinni Óli Prik Þroskasaga Þjóðhetju ásamt félögum sínum í Mono Town. Daði stofnaði hljómsveitina Jagúar og hlaut með henni Íslensku tónlistarverðlaunin. Hann sá um hljómsveitarstjórn á uppfærslu Borgarleikhússins á Jesus Christ Superstar og hljóðsetti m.a. DVD útgáfu af uppfærslu Vesturports og Nick Cave á Woyzeck og einnig sem upptökustjóri og útsetjari fyrir tónlistina í söngleiknum Blái hnötturinn sem frumsýnd var í Borgarleikhúsinu í september 2016.

Daði hefur komið fram og hljóðritað með Bubba Morthens, Megasi, Baggalúti, Bang Gang, Kristjönu Stefánsdóttir, Snorra Helgasyni, Stuðmönnum, Páli Rósinkranz, Páli Óskari og Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt fjölda annarra. Hann hefur einnig séð um tónlistarstjórn á ýmsum viðburðum, s.s 100 ára afmæli Eimskipa í Hörpu. Daði hefur einnig verið tónlistarráðgjafi í ýmsum verkefnum meðal annars fyrir RÚV.

Skrifaðu ummæli