KRISTINN SÆMUNDSSON / KIDDI KANÍNA

0

Kiddi-24

Kristinn Sæmundsson eða Kiddi Kanína eins og flestir þekkja hann er goðsögn í lifandi lífi. Kiddi opnaði eina bestu plötubúð landsins „Hljómalind,“ flutti inn tugi hljómsveita, gaf út Extrablaðið og var með útvarpsþætti svo fátt sé nefnt. Kiddi hugsaði öðruvísi, þorði og gerði! Kappinn fagnaði tímamótum nú á dögunum en hann varð fimmtugur og af því tilefni fannst okkur tilvalið að fá þennan mikla snilling í spjall. Hann sagði okkur frá öllu Hljómalindsbraskinu, Uxa ævintýrinu og hvað er framundan svo fátt sé nefnt.


Hvenær og hvernig byrjaði þinn tónlistaráhugi og hvaða hljómsveitir voru þá í uppáhaldi?

Ég man bara ekki eftir mér öðruvísi en að vera alveg heillaður af tónlist og hljómsveitaköllum aðallega. Líklega er fyrsta slíka minning mín að hlusta á Hljóma og ég að munda badminton spaða með. Svo bara var maður að fíla Karíus og Baktus, Mikka ref og ræningjana í Kardimommubænum, bara svona eins og flest íslensk börn. Ómar Ragnarsson og Fiðrildi líka, lítil 7” sem frænka mín gaf mér heillaði mig líka allveg upp úr skónum og já, gleymum ekki Ævintýri frá sömu frænku. Líklega er spurningin þó meira miðuð á eldri aldur og þá verð ég að nefna að 1976/7 þá tíu eða ellefu ára fór ég alveg óvart á bíómynd um Led Zeppelin. Ég hélt ég væri að fara á stríðsmynd. Svo bara dúndraðist rokkið yfir mig og ég bara varð aldrei samur á eftir. Daginn eftir fór ég í bæinn og keypti mér mínar fyrstu plötur sjálfur. Led Zep, Presence, Kiss – Destroyer og safnplötu með Rolling Stones. Upp frá því ól ég manninn í plötubúðum meira og minna.

Kiddi-35

„Tónlistarsmekkur þjóðarinnar var að dala mikið og lítil gróska og fáir möguleikar í boði fyrir það sem mér fannst skemmtilegt. Pönk, indí og jaðartónlist allratíma og bara það svalasta úr tónlistarsögunni var bara að hverfa úr búðum landsins. Þarna sá ég tækifæri og fór að vinna beint með krökkunum í félagsmiðstöðvunum, í skólunum og víðar.“

Nú tengja margir þig við goðsagnakenndu plötuverslunina Hljómalind. Hvenær opnaðir þú verslunina og hvernig kom það ævintýri til?

Þetta gerðist allt svolítið af sjálfum sér. Þannig var að ég var að vinna fyrir Smekkleysu meðan Sykurmolarnir voru að spila um allann heiminn. Svo leiddi eitt af öðru og áður en varði var ég kominn af stað með póstverslun og bás í Kolaportinu í kringum 1989. Árið eftir ákvað ég að efla þetta aðeins og hef samband við Rúna Júl vin minn og velgjörðarmann og spyr hann hvort að hann vilji verða Guðfaðir Hljómalindar og verndari. Það samþykkti hann með glöðu geði og ræktaði það hlutverk sitt alla tíð af sinn einskæru góðmennsku og kærleik. Þetta var árið 1990, en fyrst var ég bara í Kolaportinu. Uppúr 1991 opnaði ég Langverstustu og minnstu plötubúð á landinu í Austurstræti 8 sem var ekki nema átján fermetrar. Hljómalind var skírð í höfuðið á Hljómum.

Í Hljómalind var samkomustaður listarmanna og kvenna og alltaf eitthvað spennandi um að vera. Hljómsveitir eins og Sigur Rós o.fl. spruttu út frá versluninni, en hvernig var að vera miðpunkturinn í þessu öllu saman og var þetta ekki algjör geðveiki?

Yndisleg bilun í alla staði en mér fannst bara gaman og naut mín í kvívetna að leiðbeina ungdómnum frá Hnakkanum og Buffalóskónum sem öllu ætluðu að kaffæra á þessum upphafs tíma. Þarna var mikið af frjóum krökkum sem flest öll hafa verið að leggja heiminn að fótum sér í allskonar listum og sköpun. Samstarfsfólk mitt í gegnum tíðana sem hefur verið stór og fjölbreyttur hópur höfðum ætíð leiðarljós, markmið og tilgang þó kannski enginn hafi vitað af því þá. Tónlistarsmekkur þjóðarinnar var að dala mikið og lítil gróska og fáir möguleikar í boði fyrir það sem mér fannst skemmtilegt. Pönk, indí og jaðartónlist allratíma og bara það svalasta úr tónlistarsögunni var bara að hverfa úr búðum landsins. Þarna sá ég tækifæri og fór að vinna beint með krökkunum í félagsmiðstöðvunum, í skólunum og víðar. Ég gaf út blaðið Extrablaðið, og var með útvarp víða, t.d. á Rótinni, Xinu 977 og Rás 2. Ég gaf tækifæri og leiddi fólk á rétta staði o.s.frv. Ég flutti til landsinn tugi hljómsveita, plötusnúða, breikara o.þ.u.l. og reyndi alltaf að bjóða erlendum blaðamönnum með því ég ætlaði að byggja brú líka út í heim. Ísland er bara svo lítið. Held að ég hafi borgað undir og boðið til landsins yfir 100 ef ekki 150 fjölmiðlafólki úr öllum áttum. Það mætti kannski frekar segja að pabbi greyið hafi gert það því hann hefur ætíð stutt mig þó stundum hafi hann neyðst til þess. Ég lagðist í trúboð má segja svo, prestar sem hafa söfnuð hljóta að vera glaðir. Held jafnvel að ég hafi verið svo heppinn að fá að upplifa einhverja skemmtilegustu tíma í plötubúðarbransanum. Allt að gerast, mikil gerjun og verið að finna endalaust af tónlist allstaðar að úr heiminum og uppgangurinn og gerjuninn hér heima og gróskan og svo var þorið að aukast.

Kiddi-31

„Pönkið er hollur uppalandi. Prins Póló er í miklu uppáhaldi sem og Jónas Sigurðsson en af nýjum er bara allt morandi í flottu stuffi … nenni ekki að byrja að telja upp.“

Þú fluttir inn margar góðar hljómsveitir til Íslands á níunda áratugnum eins og t.d. Prodigy, Shellac og Propellerheads svo fátt sé nefnt. Eru einhverjir tónleikar sem stóðu uppúr að þínu mati og hvernig var að hitta allar þessar stórstjörnur?

Megnið af mínu liði voru nú ekkert svo miklar stjörnur, sumir urðu það en þetta var vanalega bara voða heimilislegt og ævintýragjarnt eins og gengur. Margar góðar svaðilfarir farnar og í mörgu lent sem í sjálfu sér flest er bara efni í heilu sagnabálkana. Það er svo margs að minnast þegar þú hefur starfað með svona mikið af allskyns liði. UXI mun ávallt verða eitthvað sem maður gleymir aldrei þó maður hafi verið í hálfgerðu adrenalín spinni allan tímann. Modest Mouse voru hetjur, Trans Am þvílíkir, Cardigans og rútuferðinn norður verður seint toppuð og Will Oldham og samstarfið við Wall of Sound og allt stuðið með Gausa á Bíóbarnum á Hverfisgötu. Ég gæti haldið endalaust áfram og líklega mun ég aldrei gleyma samstarfinu við Sigur Rós. Þið sem ég get bara ekki talið upp ég elska ykkur líka.

Kiddi-32

„Bæjarbíó eins og svo margt annað í lífi mínu má segja að hafi bara gleypt mig. Þar er ég afar heppinn og ánægður. Þetta er svo magnað hús og mikill og góður andi sem þarna svífur um sali. Þetta er eins og að stíga inn í tímavél. Afar fallegt og vel við haldið þó aðeins megi fara að huga að nokkrum smáatriðum til lagfæringar.“

Þú hefur alltaf haft puttann á púlsinum hvað varðar tónlist og verið á undan samtímanum. Hvernig ferðu að því og hvað er það í tónlist sem grípur þig?

Púlsinn hefur puttann á mér og það er bara ágætis fórnarlamb að vera. Hef eyru og nota þau stundum. Nei, ég get bara ekki svarað þessu og skil bara ekkert í þessu. Hlutirnir bara koma og ég er hálfgert fórnarlamb í þessu eins og flestu öðru. Í tónlist er það ögrandi ljúfmennska og hráleiki og PÖNK í andanum. Sannleikurinn í góðu harmóníi ólíkra tónlistamanna eða hljóðfæra eða bara grúfið sem maður dettur inn í og týnist í. Maður verður ósýnilegt samhengi í lífinu og ekkert skiptir máli eða allt.

Kiddi-33

„Heima hátíðin hef ég og nokkrir félagar mínir haldið núna í tvö ár í röð sem er svona tónleikahátíð í Heima-húsum. þrettán hús – þrettán hljómsveitir sem hver kemur fram tvisvar á mismunandi heimilum. Þetta er haldið síðasta vetrardag ár hvert og hafa nú aðeins verið að bætast inn hliðardagskrár og óvæntaruppákomur.“

Hljómalind hætti starfsemi sinni 22. febrúar 2003 og þú lést þig hverfa ef svo má að orði komast í dágóðann tíma en ert kominn aftur í braskið. Þú hélst tónleikaröð í heimahúsum í Hafnarfirði fyrir ekki svo löngu og sérð einnig um hið sögufræga Bæjarbíó í Hafnarfirði. Hvað ertu að bralla í Bæjarbíói og hvað varð um þig?

Ég fór út í garð að moka og starfaði við garðyrkju þar til ég gat það ekki meir vegna slys, hálshnykk sem ég fékk. Þar naut ég mín afar vel og ég ræktaði mikið af blómum, var nánast blómaóður og það hef ég ætið verið. Ég stofnaði fjölskyldu og eignaðist börn og skildi og allskonar bull og vitleysa. Ég á þrjá stráka og elska þá mikið. Heima hátíðin hef ég og nokkrir félagar mínir haldið núna í tvö ár í röð sem er svona tónleikahátíð í Heima-húsum. þrettán hús – þrettán hljómsveitir sem hver kemur fram tvisvar á mismunandi heimilum. Þetta er haldið síðasta vetrardag ár hvert og hafa nú aðeins verið að bætast inn hliðardagskrár og óvæntaruppákomur. Bæjarbíó eins og svo margt annað í lífi mínu má segja að hafi bara gleypt mig. Þar er ég afar heppinn og ánægður. Þetta er svo magnað hús og mikill og góður andi sem þarna svífur um sali. Þetta er eins og að stíga inn í tímavél. Afar fallegt og vel við haldið þó aðeins megi fara að huga að nokkrum smáatriðum til lagfæringar.

Hvernig finnst þér Íslenska tónlistarsenan í dag og hvað er í uppáhaldi?

Frábær sena! Pönkið er hollur uppalandi. Prins Póló er í miklu uppáhaldi sem og Jónas Sigurðsson en af nýjum er bara allt morandi í flottu stuffi … nenni ekki að byrja að telja upp. Mikill metnaður og mörg tækifæri, fólk kann sko að njóta menningar í dag og mætir á tónleika og mannamót því það er gaman. Frábært ástand!

Kiddi-16

Hvað er framundan hjá Kidda Kanínu?

Halda áfram að safna eyrum, reyna að vanda mig við að reka Bæjarbíó og koma því í það horf sem þarf til að það megi blómstra til fulls. Halda áfram að sprella í Hafnarfirði og núna er verið að kokka saman febrúar dagskránna. Hún er svo þétt að ég er kominn á Heilsuhælið í Hveragerði í smá herðingu fyrir komandi átök.

Með Kidda á myndunum er hundurinn hanns og Binni Reynisson aðstoðarmaður Kidda og einnig rótari pollapönk.
Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

 

Comments are closed.