KRISTINN MÁR PÁLMASON OPNAR SÝNINGU Í DEAD GALLERY LAUGARDAGINN 23. JANÚAR

0

kristinn már pálmason 2

Laugardaginn 23. Janúar kl 16:00 opnar Kristinn Már Pálmason málverkasýningu er nefnist „Svartur punktur” í Dead Gallery, Laugarvegi 29. Þetta er tuttugasta einkasýning Kristins Más. Á sýningunni eru verk unnin með akríl og málningarsprautu á striga á tímabilinu 2014 – 2016.

Kristinn Már Pálmason er fæddur í Keflavík 1967. Hann stundaði nám við Myndlista og handíðaskóla Íslands 1990 – 94 og The Slade School of Fine Art, University College London 1996 – 98 (MFA). Kristinn Már á að baki fjölda einkasýninga auk þátttöku í samsýningum og samvinnuverkefnum hér heima og erlendis. Hann hefur komið að ýmiskonar menningarstarfsemi og er t.a.m. annar stofnenda og sýningastjóri Anima gallerís í Reykjavík og einn af stofnendum og stjórnarmeðlimum Kling & Bang gallerís.

kristinn már pálmason

Kristinn vinnur með myndmál sem inniheldur til jafns tákn og óhlutbundin form eða formleysur. Myndmálið einkennist af sérkennilegum núningi rökhyggju og rökleysu. Táknið getur því öðlast abstrakt eiginleika á meðan formleysan gefur til kynna táknrænt innihald. Verk Kristins eru um leið einskonar dagbókarfærslur. Mismunandi nálgun í afar fjölbreyttum hugmyndaheimi og gerólíkum formútfærslum hefur kallað fram meðvitaða athugun listamannsins á eigin sálarástandi dag frá degi. Táknfræði verkanna sem slík er sjálfstæður heimur í heildarmyndinni, þar kennir áhrifa samtímans sem og alkemíu og geometríu á víðum grundvelli. Jacques Derrida heimspekingur afbyggingarinnar, árið 1967 (fæðingarári Kristins) segir að skriftir séu ekki einungis endurgerð af ræðu heldur skráning og fæðing hugsana um eðli og áhrif þekkingar.

„Það nægir mér ekki að gera bara eitthvað, þetta eitthvað verður að vera eitthvað!”

Dead Gallery, Laugarvegur 29 101 Reykjavík
Opnunartími: 13:00 til 18:00 alla daga vikunnar.

Comments are closed.