KRAKKBOT OG AMFJ SPILA LÖG SVAVAR KNÚTS Í MENGI

0

FALK

Útgáfu og viðburðafélagið FALK kynnir „Afskræmingu Svavars Knúts“ einstakan tónlistarviðburð í Mengi, þar sem hljómfagrir tónar söngvaskáldsins Svavar Knúts drukkna í rafstraumum Krakkbot og AMFJ.

IMG_6423

Svavar Knútur

Söngvaskáldið ástsæla Svavar Knútur mun ásamt raf- og óhljóðalistamönnunum Krakkbot og AMFJ flytja lög sín í Mengi annað kvöld (laugardagskvöld, 9. Janúar) klukkan 21.00, en húsið opnar klukkan 20.00.
Á tónleikunum mun Svavar leika úrval af lögum sínum á sinn einstaklega einlæga hátt, einn með gítarinn og röddina fögru. Hætt er þó við því að aðdáendum Svavars Knúts bregði í brún, því hljóð hans munu verða brotin og afskræmd, teygð og toguð, sléttuð og felld í meðförum þeirra félaga Krakkbot og AMFJ.

amfj

AMFJ

Það verður sannkölluð hljóðveisla í Mengi þegar þessir andstæðu pólar mætast í samvinnu eða baráttu. Kvöldvaka sem fer allan skalann frá hinu mikilfenglega til hins viðkvæma, um ölduslóð sínusbylgjunnar að broti raddarinnar.
Svavar Knútur er þekktur um víðan völl fyrir hugljúfar lagasmíðar sínar og vinalega sviðsframkomu, auk þess að vera kunnur jafnréttissinni og málsvari lítilmagnans. Hann hefur með þrotlausri vinnu unnið hug og hjörtu landa sinna, sem og sístækkandi aðdáendahóps í þremur heimsálfum. Eftir hann liggja fjórar hljómplötur, en sú nýjasta Brot kom út á nýliðnu ári og hefur vakið mikla lukku.
Krakkbot er annað sjálf listamannsins Baldur Björnssonar. Hann leikur rafræna dómsdagstónlist innblásna af annarlegum veraldarkenningum og hefur getið sér gott orð bæði heima og erlendis fyrir hljóðheim sinn og sviðsframkomu. KRAKKKBOT hefur unnið með ýmsum listamönnum og hljómsveitum auk þess að hafa gefið út tvær plötur í fullri lengd, nú síðast vínylplötuna „BLAK MUSK” hjá FALK.

krakkbot

Krakkbot

AMFJ eða Aðalsteinn MotherFucking Jörundsson hefur hvarvetna vakið athygli fyrir kraftmikla raftónlist sína, en hann blandar saman taktfastri hryntónlist og umbreyttum hvunndagstónum í ólgandi hrærigraut tilfinninga og angistar. Tónlist hans hefur komið út hjá FALK útgáfunni íslensku og Yatra Arts í Kanada, en hann vinnur nú að nýrri plötu .
Hér má heyra viðtal tekið af Elísabetu Indru Ragnarsdóttur fyrir hönd Mengis, en þar ræða Baldur og Svavar Knútur um vináttu, andstæða póla í tónlist og hvað vænta má á laugardaginn:

Comments are closed.