KÓRUS FLYTUR EINGÖNGU FRUMSAMIÐ EFNI

0

Kórus.

Reykjavík Folk Festival fór afar vel af stað á fimmtudaginn og hefur stemmingin verið vægast sagt frábær! Loka kvöldið er í kvöld en þá koma fram Marteinn Sindri, Helena Eyjólfs, Sigurður Guðmundsson og Kórus. Tónlistarmaðurinn Pétur Ben fer fyrir hljómsveitinni/kórnum Kórus en það er eini kórinn (svo vitað er) sem flytur eingöngu frumasamið efni!

Pétur Ben.

Albumm.is náði tali af Pétri Ben og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um Kórus og tónleikana í kvöld!

Hvað er Kórus og hvernig byrjaði það verkefni?

Kira Kira á hugmyndina og kemur að máli við mig fyrir ca 2 árum og biður mig um að vera með í nýjum kór sem hefði aðsetur í MENGI.  Hún nefndi nokkra á nafn og meðal annarra nefndi hún Maríu Huld en við María höfðum oft rætt það að stofna svona kór þannig að ég hélt eiginlega að þetta væri sá kór.  Við vorum auðvitað bara örfá í upphafi og ég var ekki stjórnandinn þá heldur var það Georg Kári sem sá um stjórnina.   Við byrjuðum á því að gera tilraunir.  Fyrst vorum við að prófa að lesa lítil lög og það tók okkur langan tíma því það eru ekki allir nótnalæsir.  Svo gerðum við tilraunir með allskonar spuna, lágum á gólfinu kannski eitt skiptið, prófuðum að gera bara “noise” en syngja ekki, öskur og köll, ganga um rýmið og mikið drónað.  Fljótlega fórum við að spinna yfir MANTRA eftir Kiru Kiru og það er ennþá mikilvægt lag í efnisskránni okkar.  Svo gerðum við líka tilraunir með að lesa grafísk skor sem Georg gróf upp og önnur verk eftir aðra.

Þegar Georg Kári flutti til Ameríku til að leggja stund á doktors nám í tónsmíðum tók ég við sem stjórnandi.  Það var vorið 2016.  Við byrjuðum  á því að mynda formlega stjórn kórssins en fram að þeim tíma var engin stjórn. Við reynum að móta stefnu kórsins saman og tökum svona flestar ákvarðanir en berum samt alltaf allar ákvarðanir undir kórinn á æfingum.

Það sem mig langaði mest að koma til leiðar sem stjórnandi var að hætta að flytja verk eftir tónskáld sem ekki eru í kórnum og ég bar það undir stjórnina sem samþykkti það strax.  Á Airwaves í fyrra fluttum við svo mjög metnaðarfulla dagskrá með verkum eftir kórmeðlimi og eitt eftir Kjartan Sveinsson en hann er mjög tengdur þessum kór og það er eitt af gömlu lögunum sem við höfum flutt frá upphafi.

Er ekkert erfitt að halda utan um svona stóra sveit?

Ég held ekkert einn utan um þennan kór.  Þessi kór er bara áhuga verkefni hjá okkur öllum og enginn er á launum við að halda honum gangandi.   Þó það verði að taka það fram að MENGIS fólkið hefur hýst okkur í 2 ár núna og veitt okkur heimili og fyrir það erum við ótrúlega þakklát.

Kira Kira er einskonar framkvæmdarstjóri og ég einskonar tónlistarstjóri en við erum samt miklu nær því að vera bílskúrshljómsveit en einhver stofnun.   Það eru mjög sterkar sálir í þessum kór sem hafa miklar skoðannir og ég tel það vera styrk okkar að hlusta á þær allar og taka ákvarðanir saman þó svo að stundum taki það langan tíma.  Þegar mikið liggur við hefur kórinn sýnt að hann getur gert kraftaverk og meðlimir hafa verið mjög óeigingjarnir á tímann sinn og lagt mikið að mörkum.

Við erum kór og svo erum við art kollektív og te drykkju hópur.  Hingað til hafa hlutirnir gengið vegna þess að það hleypur alltaf einhver í þau verk sem þarf að vinna.

Hvernig lög syngur Kórus og hvernig mundir þú lýsa tónlistinni?

Þetta er eini kórinn sem ég veit um sem flytur bara frumsamda tónlist.  Sum verkin eru hefðbundin útskrifuð kórverk en önnur eru kannski einföld lög sem eru sungin af einhverju okkar og svo spinnum við hin yfir.  Við erum með þyngri verk í bland við einskonar frumsamin þjóðlög.  Stundum erum við alveg acapella og stundum með hljóðfæra undirleik eða jafnvel rafhljóð því það eru alveg nokkur raftónskáld í hópnum.  Svo eru margir myndlistarmenn og konur í hópnum  sem leggja líka mikið til.  Við verðum með myndlistar/hljóðlistar/gjörning í Ásmundarsafni bráðum.

Kórus kemur fram á Reykjavík Folk Festival í kvöld, við hverju má fólk búast?

Við munum leggja sérstaka áherslu á ungu söngvaskáldin í kórnum að þessu sinni og ég get lofað því að tónleika gestir verða ekki sviknir af því.  Svo er bara eitthvað englaryk í loftinu í kringum þennan hóp sem ég stjórna ekki og skil ekki og vil ekki skilja.

Eitthvað að lokum?

Já Kórus væri ekki til nema af því að Kira var nógu hugrökk til að stofna hann.   Þetta er ekki hægt en við gerum það samt.  Gerum það samt og gerum það saman.

http://www.folkfestival.is

Skrifaðu ummæli