KÓRUS BLÆS TIL TÓNLEIKA Í IÐNÓ Í KVÖLD

0

Ljósmynd/Karolina Maruzsak.

Kórus er einhverskonar kór; 30 manna hópur vina og hreyfiafla úr tónlistar- og myndlistarsenu bæjarins, sem kemur saman í hverri viku til að æfa. Sérstaða Kórusar er sú að hann syngur aðeins verk eftir meðlimi kórsins. Stofnandi Kórusar og stemningskona mikil er Kristín Björk Kristjánsdóttir, öðru nafni Kira Kira, en kórinn hefur nú starfað í á þriðja vetur.

Ljósmynd/ Tom Roelofs.

Á tónleikunum í kvöld verða m.a. flutt ný verk eftir systurnar Gyðu Valtýsdóttur og Kristínu Önnu, Valgeir Sigurðsson, Óbó, Kira Kira, Martein Sindra, Elínu Elísabetu, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, Jelena Ćirić, Snorra Hallgrímsson, Ragnar Helga Ólafsson, sillus (Sigurlaugu Thorarensen), Björn Thorarensen og stjórnanda kórsins Petur Ben.

Ljósmynd/Karolina Maruzsak.

Kórus er í þrusuformi eftir að hafa komið fram á MixMass-tónlistarhátíðinni í Belgíu í byrjun árs, meðal annars með dönsku hljómsveitinni Efterklang og Belgísku barrokksveitinni B.O.X. Þar að auki kom Kórus fram á tónlistarhátíð Sigur Rósar, Norður og niður, í Hörpu milli jóla og nýárs.

Tónleikarnir verða í Iðnó í kvöld fimmtudag og hefjast klukkan 21:00. Aðgangseyrir 2000 kr.

Skrifaðu ummæli