„kominn tími til að heiðra vin okkar, bróðir, son og djammlegan anda”

0

Í kvöld fara fram rokktónleikarnir Lizardfest 2018 og er dagskráin alls ekki af verri endanum! Bjarni Jóhannes Ólafsson var forsprakki hljómsveitarinnar Churchhouse Creepers en hann var þekktur fyrir stórkostlega sviðsframkomu, feitustu riff norðan Alpafjalla og stærsta bros sem fyrir finnst. Bjarni féll fyrir eigin hendi eftir langa baráttu við andleg veikindi þann 19. apríl síðast liðinn og er löngu kominn tími á að koma saman og heiðra þennan mikla snilling.

Dagur Atlason forsprakki Lizardfest svaraði nokkrum léttum spurningum!


Hvað er Lizardfest 2018 og hvernig kom til að ráðist var í þetta skemmtilega verkefni?

Lizardfest er tónlistarhátíð í þyngri kantinum tileinkuð Bjarna Jóhannesi, forsprakka Churchhouse Creepers, sem tók sitt eigið líf þann 19. apríl 2017 eftir baráttu við þunglyndi og kvíða. Bjarni lifði, eins og við mörg, fyrir tónlist og skyldi áhorfendur sína oftar en ekki eftir gapandi eftir orkumikla og stórskemmtilega sviðsframkomu. Tilgangur hátíðarinnar er að halda partýinu sem Bjarni hóf með látum, gangandi. Við viljum ekki að fólk gleymi fyrir hverju Bjarni stóð og er engin betri leið en að skella í eina tónlistarveislu, með hljómsveitum sem hann hélt mikið uppá. Ég og Þorsteinn Árnason, hljómsveitarmeðlimur minn og góður vinur Bjarna, byrjuðum því að skipuleggja þessa hátíð nú síðast liðin desember ásamt góðum vinum og fór þetta fljótt á flug.

Við hverju má fólk búast á tónleikunum og hverjir koma fram?

Fyrst og fremst má fólk búast við töluverðum hávaða. Um er að ræða nokkrar af kraftmestu sveitum landsins innan þessarar senu, ef ég leyfir mér að nota stór orð.
Fyrst á svið er stoner/doom hljómsveitin Slor og setur hún tóninn fyrir kvöldið með sín þungu og bassadrifnu riff. Næst er það tríóið Volcanova sem spila party/stoner af bestu gerð og þrá ekkert heitar en að sjá þig slamma. Godchilla fylgja þeim eftir með nýja plötu, Hypnopolis, í fararteskinu. Einnig mætir harðkjarnasveitin Grit Teeth á svið með plötuna sína Let it Be, sem sömuleiðis kom út í fyrra, og ætla þeir að hrista vel upp í mannfólkinu. Dead Coyote eru fimmtir í röðinni, en það er splunkunýtt verkefni sem saman stendur af mér, Degi, og Sigurgeiri bassaleikara Churchhouse Creepers og ætlum við að taka lög sem margir ættu að kannast við í bland við nýjungir. Síðast en ekki síst er það bandaríska hljómsveitin Elder frá Boston Massachusetts. Sveitin spilar magnþrungið stoner rokk og gáfu nýverið út plötuna Reflections of a Floating World sem rataði ofarlega á fjölmarga vinsældarlista innan stoner rokk senunnar. Elder var ein uppáhalds hljómsveit Bjarna og því mikill heiður að fá hljómsveitina til landsins.

Er eitthvað fleira á döfinni og eitthvað að lokum?

Hugmyndin er að reyna að halda þetta aftur að ári ef allt gengur vel. Við erum með slatta af frábærum tónlistarhátíðum í þyngri kantinum hér á landi svo sem Reykjavík Deathfest, Oration, Norðanpaunk, Eisntaflug og jafnvel Solstice, en það vantar tónlistarhátíð á borð við Desertfest, þar sem einblínt verður á stoner/desert rokk og doom. Annars tekur við eftir þetta smá slökun, og í sumar förum við Volcanova að taka upp okkar fyrstu breiðskífu ásamt því að skipuleggja frekari tónleika. Ég vona svo sannarlega að sem flestir komi og hjálpi okkur að heiðra minningu Bjarna.

Tónleikarnir fara fram á Gauknum og er hægt að nálgast miða á Tix.is Fram koma: Elder, Dead Coyote, Godchilla, GRIT TEETH, Volcanova

 

Skrifaðu ummæli