KOMDU MEÐ Á KARNÍVAL Í NORÐURMÝRI

0

MÝRI 3

Norðurmýrarhátíð, hverfishátíð íbúa í Norðurmýri verður haldin laugardaginn 18. júlí. Sannkölluð karníval-stemning mun ríkja á götum úti þar sem gestum gefst einstakt tækifæri að kynnast íbúum og sögu hverfisins. Fjölbreytt dagskrá verður í boði fyrir alla aldurshópa, t.d. útijóga, bílskúrs- og skottsölur á Mánagötu, Norðurmýrar bollar til sölu, götugrill, Karnival stangir í boði emmessís*, Sólbert fyrir fullorðna* seinnipartinn, tónleikar þar sem (heimsþekktir) tónlistarmenn úr Norðurmýri troða upp. Má þar nefna Sóleyju Stefánsdóttur, Mosa Musik og Átrúnaðargoðin. Hesturinn Svarti-Pétur og trúðurinn Tóti verða galvaskir á svæðinu, garðyrkjuspjall, kynning á nágrannavörslu, gamlar ljósmyndir af hverfinu í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur verða til sýnis og fornbílaklúbburinn tekur rúntinn. Dagskráin hefst á Bollagöturóló kl. 13 og henni lýkur með tónleikum á Karlagötu sem hefjast kl. 17.

Að lokinni dagskrá eru allir hjartanlega velkomnir í garðpartí nokkurra húseiganda á Karlagötu.

Kynnumst, fræðumst og gleðjumst saman í sólinni á meðan birgðir endast!

Nánar um hátíðina hér

Norðurmýri er hverfi í Reykjavík sem markast af Snorrabraut í vestri, Miklubraut í suðri og Rauðarárstíg í austri. Norðurmörk hverfisins er ýmist talin miðast við Njálsgötu, Grettisgötu eða Laugaveg. Hverfið dregur nafn sitt af mýrlendi milli Rauðárholts og Skólavörðuholts. Götur hverfisins draga nöfn sín af persónum í Landnámu, Njálu og Laxsdælu. Þær eru Auðarstræti, Bollagata, Guðrúnargata, Gunnarsbraut, Hrefnugata, Karlagata , Kjartansgata, Mánagata, Skarphéðinsgata, Skeggjagata og Víflsgata. Auk þess má telja hluta Flókagötu, Njálsgötu og Grettisgötu.

Norðurmýri er byggð á fjórða áratugnum og hefur haldist í upprunalegri mynd að mestu; steinuð fjölbýlishús með görðum sunnan megin við húsin sem afmarkast með steyptum garðveggjum. Húsin eru byggð þétt, girðingarumræður tíðar og gerir að verkum að fólk kynnist auðveldar og ríkir því góður andi í hverfinu.

 

Comments are closed.