KÓLUMKILLI BÝÐUR HLUSTENDUM INN Í DISKÓTEK DJÖFLASKÖTUNNAR

0

Kólumkilli býður hlustendum að stíga inn í diskótek djöflaskötunnar og svífa í gegn um eimyrju nútímalífsins við skyggðan himin eins og tákn í listaverki, þar sem grúvið er þéttara en tennurnar í Richard Kiel. Þessa hóflega alvörugefnu heimsendaspá í súrrealískum anda verður að finna á væntanlegri plötu Kólumkilla, Untergang Blues, en Djöflaskatan er nú kominn á Spotify, iTunes, Google Play, Amazon og aðrar algengar vefveitur.

Kólumkilli er reykvískur kvartett skipaður Þresti Árnasyni, Hrannari Ingimarssyni, Paul Maguire og Arnari Hreiðarssyni. Hafa þeir þrír síðastnefndu áður gert góða hluti með böndum á borð við Ske, The Stairs og Hljómsveitina Ég. Höfundur laga og texta Kólumkilla er Þröstur Árnason. Myndskreyting sú er fylgir Djöflaskötunni á efnisveitum netsins er eftir Trausta Skúlason.

Nafn kvartettsins er fengið úr skáldsögu Halldórs Laxness, Sjálfstætt fólk. Í upphafskafla bókarinnar segir frá írskum munki og særingamanni að nafni Kólumkilli sem leggur bölvun á Ísland eftir að hafa verið hrakinn þaðan af norrænum landnámsmönnum. Mun persóna Laxness vera byggð á raunverulegum írskum ábóta sem uppi var á 6. öld.

Skrifaðu ummæli