KÓLGA FRÁ HLJÓMSVEITINNI KÓLGU

0

Hljómsveitin Kólga er um þessar mundir að senda frá sér sína fyrstu plötu, samnefnda sveitinni. Tónlist Kólgu er í þjóðlagastíl, en platan inniheldur bæði þjóðlög úr ýmsum áttum og frumsamin lög í þeim anda.

Meðlimir Kólgu mynda nokkurskonar þverskurð af þjóðinni, innanborðs eru blikksmiður, hjúkrunarfræðingur, verslunarmaður og prófessor, sem skilja þarna við sig hvunndagshlutverkin og sameinast í tónlistinni. Magni Friðrik Gunnarsson, gítarleikari og Jón Kjartan Ingólfsson, bassaleikari, hafa spilað saman frá unglingsárum alls kyns tónlist í fjölda sveita, en leiðir þeirra og Helga Þórs Ingasonar lágu saman fyrir nokkrum árum. Þegar fiðluleikarinn Kristín Sigurjónsdóttir síðan varð á vegi þeirra var Kólga fullmótuð.

Frumsamið efni Kólgu, jafnt lög sem textar, koma flest frá Helga Þór Ingasyni, en einnig eru lög við tvö ljóð Jóns heitins Árnasonar frá Syðri-Á í Ólafsfirði. Auk þess eiga Eva Hauksdóttir og Þorkell S. Símonarson hvort sinn textann á plötunni og Jón Kjartan eitt lag. Erlendu lögin eru annars vegar keltnesk og hins vegar amerískt blágresi.

Útsetningar og upptökustjórn var í höndum Kólgu, upptöku og hljóðblöndun sá Jón Kjartan bassaleikari sveitarinnar um, hljómjöfnun vann Orri Harðarson og grafísk hönnun var á könnu Jakobs Jóhannssonar. Sveitin blæs til heljarinnar útgáfutónleika á KEX hostel, í Gym & Tonic salnum, miðvikudaginn 4. október kl. 21.00 og verður aðgangur ókeypis. Splunkunýji og fíni geisldiskurinn verður þar til sölu. 

Skrifaðu ummæli