KÁTT Á SOLSTICE FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA

0

Eins og flest allir landsmenn vita hefst tónlistarhátíðin Secret Solstice í dag en hátíðin er einkar glæsileg í ár! Secret Solstice er ekki bara ein glæsilegasta tónlistarhátíð landsins en það má finna skemmtilega dagskrá fyrir alla aldurshópa! Hátíðin Kátt á Klambra sér um krakkasvæðið í dalnum þetta árið undir nafninu Kátt á Solstice og er dagskráin virkilega glæsilegt!

Albumm.is náði tali af aðstandendum Kátt á Solstice og svöruðu þau nokkrum skemmtilegum spurningum!


Hvernig kviknaði hugmyndin Kátt á Klambra og Kátt á Solstice?

Hugmyndin kviknaði hjá Jónu, einum skipuleggjanda hátíðarinnar, á Secret Solstice hátíðinni 2015. En hún fór með dóttur sína yfir daginn sem var rúmlega eins árs, það skapaðist svo góð stemning í sólinni hjá fullorðnum og börnum og reggí tónlist í gangi.

Hvenær var fyrsta hátíðin haldin og hvernig heppnaðist hún?

Fyrsta hátíðin var haldin í júlí 2016 á Klambratúni og gekk vonum framar. Við áætluðum að halda litla og notalega hátíð en mæting rauk fram úr okkar björtustu vonum og allir fundu eitthvað við sitt hæfi á hátíðinni. Boðið var meðal annars upp á tónlistaratriði, lista- og föndursmiðju, barnanudd og alls konar afþreyingu þar sem börn fengu að vera virkir þátttakendur.

Það virðist vera töluvert öðruvísi áherslur á þessarri hátíð en öðrum krakka hátíðum, hefur það alltaf verið markmiðið og er ekkert erfitt að finna fólk og atriði á hátíðina?

Það hefur verið markmiðið frá byrjun að skapa þessa gagnvirkni og að börn fái að vera þátttakendur í að skapa og gera. Fólk er ótrúlega opið fyrir þessu og við höfum fengið með okkur marga til liðs sem þetta hefði aldrei verið hægt að gera án, en auðvitað fylgja ávallt einhver nei í undirbúningsferlinu. En flestir eru viljugir að gera eitthvað fyrir ungu kynslóðina.

Hvað verður í boði á Kátt á Solstice og fyrir hvaða aldur er þetta?

Börn yngri en tíu ára fá frítt í fylgd með fullorðnum sem eru með hátíðarmiða svo það verður eitthvað í boði alveg frá þeim aldri og niður. Við verðum einnig með ungbarnarými með skiptiaðstöðu og þar sem hægt er að vera í meiri rólegheitum. Það verður ýmislegt í boði, þar á meðal ýmis atriði, s.s. barnajóga, beatbox kennsla, hljóðfæra- og föndursmiðja, tattúbás ásamt ýmis konar afþreyingu á svæðinu.

Hvenær byrjar Kátt á Solstice og hvar eru þið staðsett í Laugardalnum?

Svæðið opnar klukkan eitt á föstudeginum og verður opið frá eitt til sex á föstu-, laugar- og sunnudeginum. Við erum staðsett rétt fyrir ofan gömlu þvottalaugarnar.

Eitthvað að lokum?

Við vonumst til að sjá sem flesta káta krakka um helgina í Laugardalnum!

www.kattaklambra.is

Skrifaðu ummæli