„KANNSKI ER ÞETTA ÆSKUÁST MEÐ ÖRLÍTILLI DRAMATÍK“

0

Tónlistarmaðurinn Birgir Steinn Stefánsson eða einfaldlega Birgir eins og hann er iðulega kallaðir sendi fyrir skömmu frá sér lagið „Can You Feel It.” Birgir hefur áður sent frá sér lög eins og „Falling“ og „Um Vetrarnótt“ sem hann gerði ásamt föður sínum Stefáni Hilmarssyni.

Can You Feel It er hlaðið góðum straumum og grípandi laglínum sem auðvelt er að syngja með en lagið er komið í rétt tæplega 200.000 spilanir á Spotify. Birgir svaraði nokkrum skemmtilegum spurningum um lagið, innblástur sinn og hvað er framundan svo sumt sé nefnt.


Um hvað er lagið „Can You Feel It“ og geturðu lýstu því í einni setningu?

Textinn er bara skálduð saga um ástina og lífið, eins og oft vill verða. Fjallar í mjög stuttu máli um tvo einstaklinga sem upplifa það að verða ástfangnir í fyrsta skiptið, kannski er þetta æskuást með örlítilli dramatík, sem er jú sígilt minni.

Lagið er sannkallaðaur popp hittari, hvaðan sækirðu innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Ég sæki innblástur úr ýmsum áttum, en dreg ekki dul á að Coldplay og James Bay eru í uppáhaldi og ofarlega í huga mér undanfarin misseri.

Á að taka tónlistina eitthvað út fyrir landsteinanna?

Það hefur alltaf verið langtímamarkmiðið. Draumurinn er auðvitað að geta framfleytt sér með tónlistinni, en eins og allir vita er það illmögulegt með Ísland eitt sem markað. Þetta gengur auðvitað mikið út á að koma sér á framfæri og til þess þarf maður að vera duglegur að semja og senda frá sér efni. Ég hef mikla unun af því og vonandi nær músíkin eyrum sem flestra. Það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

Hvað er á döfinni hjá þér og eitthvað að lokum?

Það er ansi margt sem mig langar að gera. Auðvitað væri gaman að gefa út plötu á einhverjum tímapunkti, en eins og staðan er núna stefni ég á að gefa út stök lög á næstu mánuðum. Ég sendi reyndar frá mér s.k. EP-plötu í maí sem fékk góð viðbrögð. En svo hefur nýjasta lagið hlotið frábærar móttökur, sem er gleðilegt. Síðan held ég bara mínu striki og reyni að vera duglegur og skapandi.

Skrifaðu ummæli