KALEO

0

kaleo jess

Hljómsveitin Kaleo hefur heldur betur slegið í gegn frá því hún kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2012. Kapparnir gerðu samning við útgáfurisann Atlantic Records og hafa því dvalið undanfarna mánuði í Texas í Bandaríkjunum. Albumm.is náði rétt svo tali af Söngvara og gítarleikara sveitarinnar Jökli Júlíussyni þar sem hann var staddur á Keflavíkurflugvelli á leiðinni til New York eftir stutt stopp á Íslandi.


Hvenær var Kaleo stofnuð og hvernig kom það til?

Hljómsveitin var stofnuð í lok árs 2012 í kringum Iceland Airwaves hátíðina það árið. Ég (Jökull), Dabbi og Danni höfum spilað saman frá unga aldri en ákváðum að það væri kominn tími til að einbeita okkur að okkar eigin tónlist og Rubin var nýlega genginn til liðs við hljómsveitina svo að Kaleo kom fyrst fram á Iceland Airwaves 2012.

kal 8

Bjuggust þið við þessum vinsældum sem þið fenguð eftir Vor Í Vaglaskógi og breytti það einhverju fyrir ykkur?

Nei, viðbrögðin komu okkur mjög á óvart. Þau gerðu það að verkum að fólk fór að hlusta á hin lögin okkar og já hjálpaði vissulega mikið til.

Hvaðan fáið þið innblástur fyrir tónlistarsköpun ykkar og hvernig semjið þið lögin?

Það er mjög misjafnt. Mér finnst oft gott að fara í annað umhverfi og semja. Ég hef t.d. samið þó nokkur lög á spáni. Ég sem oftast lögin og svo útsetjum við þau saman og förum með þau í stúdíó.

kal 3

Nú eruð þið búnir að dvelja í Bandaríkjunum í nokkra mánuði mun það hafa áhrif á tónlistina ykkar og ef svo, hvernig þá?

Það á bara eftir að koma í ljós held ég. Vonandi til hins betra þá.

Hvar voruð þið í USA og hvað voruð þið að gera þar?

Við erum búsettir í Austin, Texas þar sem að við búum sex saman í húsinu. Hljómsveitin, myndatökumaðurinn okkar og ‘tour managerinn’. Við erum aðallega á ferðinni að spila og koma fram á bæði tónleikum og útvarpsstöðvum og svo nýtum við allan þann frítíma sem við fáum til að fara í stúdíó.

kaleo 2

Nú eruð þið komnir með plötusamning þar ytra við hvern er hann og hvernig er honum háttað?

Við gerðum plötusamning við Atlantic Records. Við fengum mjög góðan samning og vinnum nú að plötu sem stefnt er á að komi út á næsta ári. Við teljum að við höfum vandað valið mjög vel.

Er ekkert erfitt að vera saman öllum stundum og  hvernig er stemmingin í hópnum?

Það gengur ótrúlega vel. Það reynir kannski mest á í rútunni á ferðalögum þar sem að það er þröngt á þingi. Stemmingin er þó yfirleitt góð enda höfum við flestir verið vinir frá því við vorum litlir.

kal 5

Ef það væri heimsendir á morgun og þið mættuð setja eina plötu á fóninn hvaða plata yrði fyrir valinu?

“Dark side of the moon“ hiklaust.

kal 9

Hvort er skemmtilegra að vera tónlistarmaður á Íslandi eða í USA og af hverju?

Bæði. Það er ótrúlega gaman að vera tónlistarmaður á Íslandi þar sem að það er svo mikil uppbygging í íslensku tónlistarlífi akkúrat núna. Það er síðan auðvitað allt öðruvísi að ferðast um USA þar sem að það er svo gríðarlega stórt land og hvert ríki frábrugðið hvort öðru.

kal 7

Getið þið sagt mér eina góða rokksögu frá USA og og hver er mesti dólgurinn í bandinu?

það er engin sem mér dettur í hug í fljótu bragði nema þá þær sem orðið hafa til undir áhrifum áfengis og eru ekki við hæfi að hafa eftir hér. Ég held að Davíð sé líklega mesti dólgurinn þó að Danni veiti honum væna samkeppni og á það oft til að vera með dólgslæti á almannafæri.

Nú voruð þið að spila í Gamla Bíó um daginn, hvernig var það og var ekki gaman að koma heim og spila fyrir landann eftir svona langa fjarveru?

Það voru ótrúlega skemmtilegir tónleikar og stemmingin í húsinu frábær. Æðislegur tónleikastaður og vissulega mjög gaman að koma heim eftir smá fjarveru og spila tónleika og hitta allt sitt fólk. Við erum þakklátir öllum sem mættu og skemmtu sér með okkur.

kal 6

Hvað er framundan hjá Kaleo?

Við erum úti á flugvelli núna og erum á leiðinni til New York og við tekur stíft tónleikaferðalag sem byrjar í NY og stoppum við m.a. í Washington, Alabama, Kaliforníu og Tenesse. Síðan eru það áframhaldandi upptökur fyrir plötuna og tónleikahald.

http://www.officialkaleo.com

 

 

 

 

 

Comments are closed.