KAFFI OLE ER KRAFTMIKIÐ ROKKLAG OG ER ÓÐUR TIL GULLA FALK

0

gulli

Á dögunum fór fram söfnun á Karolina fund fyrir rokkarann Gulla Falk en um þessar mundir berst hann við Krabbamein. Gulli er einn helsti rokkhundur Íslands og þó víðar væri leitað og hefur hann komið að ótal verkefnum tengdri þeirri senu. Þrotlaust starf, frábærar plötur, óteljandi gítarsóló og síðast en ekki síst frábær lög einkenna feril Gulla.

gulli 2

Hörður Halldórsson er einn helsti rokkhundur Íslands en hann er í hljómsveitunum Skurk og Changer svo fátt sé nefnt. Höddi eins og hann er kallaður skellti í eitt ansi hresst rokklag sem er tileinkað Gulla og nefnist það „Kaffi Ole.“ Fleiri rokkhundar koma fram í laginu og má þar t.d. nefna Stebba Jak í Dimmu og Bibba í Skálmöld svo fátt sé nefnt.

Albumm.is náði tali af Hödda og svaraði hann nokkrum spurningum.

Hvað er að frétta af Hödda (Hörður Halldórsson) í Skurk og Changer?

Ég er að klára að taka upp Skurk plötuna Blóðbragð í sumar og svo hefjast upptökur í ágúst á næstu og líklega síðustu Changer plötunni sem hefur fengið vinnutitilinn The Great Equlizer.  Á henni verða ég Kristján sem eftirlifandi Changer liðar en við erum með góða menn á mæknum, Andir frá In the company of Men og á bassa verður Maddi Múspell og Forgarður Helvítis. Einnig verða nokkur skemmtileg óvænt andlit sem koma að plötunni.

Hvernig gekk söfnunin og hvað geturu sagt mér um lagið?

Söfnunin gekk mjög vel á endanum og við náðum settum markmiðum og hentum í eitt gott lag.
Í ca. einn mánuð hef ég haft það verkefni að semja og taka upp lag sem heitir „Kaffi Ole.“ Lagið er samið sem hvatningarlag til félaga míns í rokkinu, Gulla Falk, en hann greindist með illvígan skaðræðiskrabba á dögunum. Lagið var samið í 80’s þungarokkstíl með allt of miklu af sólóum og dúndrandi krafti. Ég ætlaði aldrei að gera þetta einn þannig að ég hafði samband við Stebba Jak í Dimmu, Kristján í Skurk, Nykri og Vetri, Bibba í Skálmöld og Ljótu fávitunum og Ottó sem var með Gulla í Exist og í Tý frá Færeyjum. Allt saman reyndir rokkarar sem ég bað um að hjálpa mér.

Hörður Halldórsson

Hörður Halldórsson

Einnig þurfti ég tæknimenn til að taka þetta upp og Jakob í GFG studio og Hallgrímur Ómars, báðir uppaldir á þungarokki, tóku það að sér að taka upp herlegheitin. Síðast en ekki síst má nefna Jóa í Beneath og fyrrum félaga minn í Changer, en hann sá um mixið. Það verður að geta þess að það að fá þessa menn, sem voru allir á kafi í verkefnum, var ekkert mál og svörin voru (svo ég vitni bara í Bibba) „ljúft og skylt“ og þeir gengu allir í þetta verkefni af rosalegri fagmennsku og lögðu sitt í púkkið með ómældri vinnu. Útkoman er allsvaðalegur flösuþeytari!

Lagið heitir „Kaffi Ole,“ sem er frasi sem Gulli Falk hefur gert að aðalsmerki sínu síðustu árin.
Aðalástæðan fyrir því ég vildi gera þetta var til að koma með nýjan vinkil á það að safna smá upphæð fyrir Gulla, þar sem hann er nú að ganga í gegnum lyfjameðferð með tilheyrandi kostnaði og vinnutapi. Núna er ég sem sagt búinn að fá rjómann af íslenska rokkinu til að leggja til hæfileika sína í þungarokkslag.

Hér fyrir neðan má hlýða á umrætt lag:

Comments are closed.