JÚNÍUS MEYVANT SENDIR FRÁ SÉR LAGIÐ NEON EXPERIENCE OG FYRSTA BREIÐSKÍFAN KEMUR ÚT 8. JÚLÍ

0

meyvant 2

Júníus Meyvant lauk nýverið við upptökur á sinni fyrstu hljómplötu sem hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið. Platan ber heitið Floating Harmonies og kemur hún út 8. Júlí nk. Platan kemur út um allan heim en verður fáanleg í eiginlegum eintökum í Evrópu fyrst um sinn. Record Records gefur út.

Þá sendir Júníus Meyvant frá sér nýtt lag af plötunni og er það komið út og ber það heitið „Neon Experience.“ Lagið gefur gott dæmi um það sem vænta má af væntanlegri plötu Júníusar ásamt lögunum sem voru á þröngskífu  hans (EP) sem kom út á síðasta ári.

Floating Harmonies var tekin upp á Íslandi í Orgelsmiðjunni, Finnlandi og fleiri stöðum. Upptökumenn voru Magnús Øder, Finnur Hákonarson, Andri Ólafsson og Júníus Meyvant. Hljóðblöndun var í höndum Magnúsar Øder og tónjöfnun (e. Mastering) í höndun Glenn Shick.

meyvant 1

Hljómsveit Júníusar Meyvants sem við kjósum nú að kalla í höfuðið á þessari fyrstu breiðskífu Júníusar, Floating Harmonies, er skipuð Árna Magnússyni, Kristofer Rodriguez og bræðrum Júníusar, þeim Guðmundi Óskari og Ólafi Rúnari Ásamt þeim var stór og flottur hópur tónlistarfólks sem spilaði á plötuna. 

Júníus Meyvant er listamannsnafn Vestmaneyingsins Unnars Gísla Sigurmundssonar. Sem ungur maður var Unnar mjög frjálslegur í anda og komst aðeins tvennt að í hans lífi, þ.e. myndlist og hjólabretti.  Annað  slagið fann hann fyrir því að tónlistargyðjan togaði í hann og velti hann því oft fyrir sér hvort hann ætti ekki að demba sér í það að læra á hljóðfæri. Á yngri árum var hann orkubolti mikill og óstýrilátur og fljótlega meinaður aðgangur að tónlistarskólanum og þurfti tímabundið að leggja drauma sína um að verða hljóðfæraleikari á hilluna.

Júníus Meyvant (1)

Fljótlega eftir að Unnar komst á þrítugsaldurinn færðist ró yfir dýrið sem bjó innra með honum og tók hann í hendur munaðarlausan gítargarm í húsi foreldra sinna og fyrr en varði var hann farinn að semja lög.  Svo mikil var sköpunargleðin að Unnar upplifði margar andvökunætur í öngum sínum yfir öllum lagahugmyndum sínum og lögin hrönnuðust upp.  Laglínurnar leituðu til hans nótt sem nýtan dag og úr varð að Unnar tók upp listamannsnafnið Júníus Meyvant.

Tónlist Júníusar er fullveðja og tilfinningaríkt þjóðlagapopp sem er í senn tímalaust og kunnuglegt. Alúðlegar útsetningar hans láta mann á köflum líða eins og maður sé staddur undir þykku ullarteppi við arineld í kofa hátt uppi í fjöllum eða í hina höndina liggjandi á funheitri sandströnd á suðlægum slóðum.

Árið 2014 var árið sem Júníus hljómaði fyrst fyrir eyrum landsmanna af einhverju viti og gerðist það þegar hann sendi frá sér sína fyrstu smáskífu, Color Decay. Lagið vakti mikla lukku og fékk töluverða spilun í útvarpi á Íslandi og sat m.a. í nokkrar vikur í efsta sæti Vinsældarlista Rásar 2. Lagið vakti líka mikla lukku hjá útvarpsstöðinni KEXP í Seattle og valdi Kevin Cole dagskrárstjóri það sem besta lagið á árinu 2014.

júníus meyvant

Júníus kom, sá og sigraði á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2014 og fór frá athöfninni með tvenn verðlaun. Annars vegar sem Bjartasta vonin og hinsvegar verðlaun fyrir besta lag ársins. Á verðlaunahátíðinni fyrir árið 2015 hlaut hann tilnefningar, annars vegar fyrir besta lag ársins og hinsvegar sem besti karlkyns söngvarinn.

Árið 2015 leit fyrsta þröngskífa Júníusar dagsins ljós og eftir langa bið. Skífan heitir einfaldlega EP og sagði Gaffa, virtasta tónlistartímarit Danmerkur, hana vera gríðarlega melódíska og einstaklega hjartnæma hlustunar. Gaffa gaf skífunni 5 stjörnur af 6 mögulegum.

Júníus hefur lagt í talsvert af hljómleikaferðum í fyrra og í ár og uppselt hefur verið á langflesta tónleika hans á tónleikaferðum um Evrópu.   Í vor og sumar eru meðal annars fyrirhugaðir tónleikar á Hróaskeldu og fleiri tónlistarhátíðum.

Stærsta fréttin á árinu er að öllum líkindum útgáfa fyrstu breiðskífu Júníusar og mun hún koma út á vegum Record Records þann 8. júlí næstkomandi.

Comments are closed.