JÓN ÓLAFSSON OG FUTUREGRAPHER

0

DSC_0075

Jón Ólafsson og Futuregrapher koma úr mjög ólíkum áttum en hafa nú komið sér saman og eru þeir að vinna í plötu. Albumm hitti kappana í stúdíói í vesturbæ Reykjavíkur og spurði þá meðal annars útí þetta forvitnilega samstarf, plötuna og tónleikana á Sónar.


Hvernig kom það til að þið tveir fóruð að vinna saman?

Jón: Árni, manst þú það?

Árni: Það var útaf grúppunni Íslensk Raftónlist á Facebook. Það var skot á hann þar inni að hann yrði nú að fara að gera eitthvað og hann sagðist vera að vinna í því. Jón sagði í djóki að ég (Jón) og Futuregrapher værum að vinna í einhverju dóti, var það ekki einhvernvegin svoleiðis?

Jón: Jú þetta er eitthvað í áttina.

Árni: Svo sendi ég á þig hvort að við ættum ekki bara að taka upp plötu saman?

Jón: Ég skráði mig inná grúppuna Íslensk Raftónlist á Facebook og þar var mér mjög vel tekið af mannskapnum. Það voru flestir frekar hissa þegar ég birtist þarna inni, kannski útaf því að ég hef ekki þennan raftónlistar bakgrunn þó ég sé auðvitað búinn að eiga reiðinnar býsn af syntum á löngum tónlistarferli. Ég fór bara þarna inn eins og ég væri að skrá mig á námskeið (hlátur).

Árni: (hlátur). Það er það besta við það, þú varst bara að opna hurð og a.t.h. hvað væri í gangi.

Jón: Já, það var bara þannig og það sem ég heillaðist mest af þarna var hvað það er mikil samkennd og allir tilbúnir að hjálpa hvor öðrum, hlusta á tónlist hvors annars, gefa ráð, lána græjur, þetta er mjög skemmtilegt samfélag. Ég fór að spyrja einfaldra spurninga eins og hvað ég ætti að hlusta á og fólk var að benda mér á hitt og þetta. Ég fór að kíkja á raftónlistarkvöld, Sónar og svona.

DSC_0082

Árni: Einmitt, þú komst á jólagleði Möller Records og það var maður eftir mann sem var nánast í viðtalsspjalli við þig.

Jón: Mönnum fannst greinilega stórfurðulegt að sjá mig þarna.

Árni:  Liðið á raftónlistarsíðunni hefur eflaust hugsað að hann mundi aldrei mæta, það er eitt að vera á facebook og annað að mæta.

Jón: Það er langt í frá að mér finnist öll raftónlist skemmtileg eða góð en ég er búinn að fá mikinn innblástur úr allskyns tónlist og þessi plata okkar Árna er fyrsta skrefið mitt í þessa átt, ég er að spila á píanó og Árni sér um rafhlutann. Við erum að gera þessa plötu og ég veit ekki til þess að það hefur verið gerð svona plata á Íslandi áður.

Árni: Nei ekki svona held ég. Þetta er alvöru ambient,;ambient eins og það var gert fyrst. Eins og þegar Brian Eno var að koma útúr holunni sinni eftir Roxy Music og kom með Music For Airports. Þessi tegund af Ambient músík sem maður setur á bara til að gera daginn betri. Án áreynslu og áreitis. Það er píanó, sveim og paddar, bara pjúra vellíðan.

Jón: Ég fór ekkert að stúdera þessa músík áður en við byrjuðum á þessu. Ég bara settist niður og setti mér það markmið að spila í svona sex til sjö mínútur og sum lögin eru samin í rauntíma, reyndar en nokkur eru samin að hluta til fyrirfram; stef sem ég spinn í kringum. Þetta var hálfgerð tilraun hjá mér.  Ég hef mestmegnis fengist við að smíða popplög þó maður hafi dottið inn í kvikmyndatónlist o.fl. inn á milli.  Nú lét ég augnablikið ráða og gerði mitt besta til að halda aftur af mér við hljóðfæraleikinn.

DSC_0098

Árni: (Hlátur) Já það er það besta.

Jón: Það er kúnstin í þessu finnst mér. Stundum langaði mig að spila meira í lögunum en þá hlustaði ég  hvernig harpan í píanóinu hljómaði og beið og gerði lítið sem ekkert. Þetta er mjög ólíkt því sem ég hef gert áður. Árni er búinn að stúdera þessa tónlist miklu meira en ég og ég var mjög forvitinn að heyra hvað honum fannst. Ég sendi honum nokkur lög og beið svo bara spenntur eftir viðbrögðum hans.

Árni: Þetta er svona key setning “að halda aftur af sér“ ég hef verið að gera músík eins og árum ´n baðs, Acid tónlist og ég er þekktur fyrir það að vera dansandi þegar ég spila live, algjörlega all inn eins og sagt er. Ég geri einnig Ambient og hef verið að gefa þannig tónlist út en þegar maður er að gera þannig tónlist þá er maður algjörlega einlægur og maður er inní einhverri kúlu og þarf svo mikið að halda aftur af sér og það er svo mikil fegurð í því og ég held að hlustandinn dragist inní það.

DSC_0089

Eruð þið langt komnir með plötuna og hvernig hefur samstarfið gengið?

Árni: Síðustu tvö lögin fékk ég um daginn og ég á eftir að semja bakrunninn og paddanna á það annars er þetta bara komið.

Jón: Svo bara mixa þetta og svo kemur þetta vonandi út í vor.

Árni: Við ætluðum að gefa þetta út strax eftir Sónar, það var gulrótin sko en við ætlum að hafa gulrótina aðeins lengra frá okkur og borða hana þegar það kemur vor, þá er uppskeran komin (hlátur). Þá er gulrótin orðin fullþroskuð.

DSC_0090

Jón: Mér finnst mjög mikilvægt að hafa Árna í þessu, fá annað input. Ég hef mjög mikla trú á samvinnu og að Árni komi að þessu með sína reynslu og sitt sound og hvernig hann heyrir þetta fyrir sér. Ég er alveg viss um að það hjálpi þessu í að skila sér á þann staðsem þetta á skilið að vera á. Ég held að þetta sé falleg tónlist og ég er mjög spenntur að vita hvernig þetta mun koma út á sviði.

Árni: Það er mikill heiður fyrir okkur að spila á opnunarkvöldi Sónar. Það er ótrúlega góð kynning fyrir okkur að  fyrstu tónleikarnir okkar eru á Sónar hátíðinni í Hörpu en ekki á einhverri holu, spila fyrir Sigga frænda og Dísu frænku. Fólk er að fara að mæta þarna og það verður fullur salur ég get lofað ykkur því, þetta verður rosalegt!

Þetta er mjög forvitnilegt samstarf og fólki finnst þetta jafnvel skrítið.

Árni: Fyrst héldu vinir mínir að þetta væri eitthvað djók (hlátur). Ég sagði við gæjana hjá Möller Records að við stefnum á að gefa plötuna út árið 2015 og þeir voru bara „já glæsilegt maður“ trúðu því ekkert en svo leyfði ég þeim að heyra hljóðdæmi og það voru bara allir vá! Ég hef orðið var við það líka að fólk er að spá í hvað við erum að gera saman og hvernig við kynntumst. Þannig fólk er forvitið um þetta samstarf þess vegna er svo gott að fara að spila í Hörpu fyrir alla.

Jón: Ég er fullur tilhlökkunar yfir að spila þarna en þetta mun reyna svolítið á þolinmæði áhorfandans og sem þarf að sökkva sér algjörlega í þetta. Það verður ekki leyfður neinn umgangur á meðan við spilum. Salnum verður lokað og það verður engum hleypt inn á meðan. Ég er að vona að þetta sé upphafið að lengra samstarfi og maður vonar að þetta falli vel í kramið hjá fólki.

DSC_0081

Árni: Við höfum verið að ná mjög vel saman og þegar við gefum út þessa plötu þá er ekkert sem stoppar það að við gefum jafnvel út langa seríu af efni þótt maður sé að vinna í mörgum projectum líka.

Er komið nafn á Projectið?

Árni: Þetta project heitir einfaldlega Jón Ólafsson og Futuregrapher. Í byrjun töluðum við um einhver nöfn en komumst að því að það væri bara fínt að hafa þetta svona. Maður hefur verið með nokkur nöfn í gegnum tíðina en Futuregrapher er svona það stærsta svo er Jón Ólafsson svona key element í íslenskri tónlist

Jón: Við vorum að spá í allskonar nöfn en við teljum þetta vera forvitnilegra svona. Ég er með mitt og Árni er með sitt en svo er komið “og“ þarna á milli. Hvað kemur útúr því? Ég er reyndar löngu kominn með raftónlistarnafn á mig, Arnar Helgi fann nafnið fyrir mig það er Electrolafsson (hlátur) mér finnst það ansi gott ég hugsa að ég noti það bara. Mér finnst mjög gaman að fara inn á þessa gresju; mér finnst ég þurfa þessa tilbreytingu. Ég er búinn að vera að gera svo svipað svo lengi. Popp og rokk tónlist er fjölbreytt en þegar maður er búinn að vera svona lengi í þessu þá fer þetta stundum að vera svolítil endurtekning og það er alveg frábært að kíkja í annað herbergi.

DSC_0054 - Copy

Hvenær byrjaði ykkar samstarf?

Árni: Það er svona ár síðan er það ekki?

Jón: Jú, við hefðum alveg getað tekið svona mánuð í þetta en okkur fannst ekki viturlegt að gera svona tónlist undir stressi (hlátur) eða undir einhverri pressu. Ég er búinn að hlusta rosalega mikið á raftónlist í svona tvö ár. Ég fer á Spotify og reyni að finna eitthvað efni þar. Þetta gengur ágætlega þó fullmikið af þessu geri út á taktinn fyrir minn smekk. Ég hef ekkert á móti því að fólk dansi en ég er að horfa í fleiri áttir held ég

Árni: Enginn klúbba dans fílingur?

Jón: Ég er búinn að vera að hlusta svolítið á Bonobo, Jon Hopkins og Boards Of Canada til dæmis og hef mjög gaman af þessu, flottir hljóðskúlptúrar, eitthvað meira heldur en bara endalaus bassatromma. Ég var að horfa á viðtal við Moby og mér fannst mjög skemmtilegt sem hann sagði „þú getur verið að semja Elektróník heima hjá þér á hvaða tíma sólahringsins sem er, þú bara setur á þig headphones“. Maður þarf ekkert að plana einhverja hljómsveitaræfingu og svona. Þetta er alveg rétt hjá honum og það er svo mikið frelsi í þessu, “You are all on your own“ og maður getur gert allt með öllum þessum litum. Ég er farinn að kunna að meta þetta svo mikið við Elektróníkina að mér finnst litirnir vera miklu fleiri heldur en í rokkinu. Fyrir mér er rokkið brúnt og grænt en mér finnst Elektróníkin vera eins og Mackintosh dolla (hlátur). Það er hinsvegar mjög auðvelt að gera eitthvað óspennandi í Elektróník sem hljómar samt voða vel; forritin eru orðin svo fullkomin og “imbamatic” og þeim fylgja allskonar lúppur og syntar.  Það er væntanlega frekar erfitt að skera sig úr fjöldanum og koma með eitthvað virkilega áhugavert og frambærilegt í raftónlist eins og annarri tónlist.

DSC_0055

Árni: Maður þarf að finna sjálfan sig í þessu.

Jón: Já, algjörlega.  Það er fínt fyrir mig að byrja á þessu sveimverkefni okkar. Ég er að spila á píanó sem er nokkuð sem ég kann held ég þokkalega en í allt öðrum hljóðheimi en venjulega. Það urðu til 8 lög en Árni hafnaði einu þeirra..

Árni: Það er bara eins og gengur og gerist, það hefur verið bleiki molinn úr Mackintosh dolluni (hlátur) mér finnst hann ekki góður sko.

Eitthvað að lokum?

Árni: Þeir sem ætla á Sónar ættu alls ekki að láta þennan viðburð framhjá sér fara. Við erum kl 21.00 á opnunarkvöldinu. Platan kemur út í vor og það verða tónleikar fyrir plötuna og svo útgáfutónleikar en við auglýsum það síðar.

 

Comments are closed.