JÓLAPERLUR SETTAR Í HINSEGIN BÚNING

0

Jólatónleikar Hinsegin Kórsins fara fram í Lindakirkju í dag laugardaginn 9. desember klukkan 16:00. Hinsegin kórinn er þekktur fyrir líflega framkomu og fjölbreytta tónlist en á dagskránni í ár er allt frá jólaperlum í hinsegin búningi.

Tilgangur Hinsegin kórsins er að vera fordómalaus vettvangur fyrir allt tónlistaráhugafólk til að hittast og njóta söngs saman, óháð kynhneigð; stuðla að þátttöku hinsegin fólks í menningarlífi og að vera jákvæð fyrirmynd og stuðla að sýnileika hinsegin fólks.

Albumm.is náði tali af Hildi Heimisdóttur einn af meðlim kórsins og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum.


Hvenær var kórinn stofnaður og hvernig kom það til?

Það var í júlí 2011 að Ásta Ósk Hlöðversdóttir, nýkomin heim úr námi í Þýskalandi þar sem hún hafði sungið með kór hinsegin fólks, ákvað að hóa saman söngglöðu hinsegin fólki á Íslandi og reyna að stofna kór. Í húsi Samtakanna 78 hittist glaður hópur sem átti það sameiginlegt að hafa sungið í kór og vera tilbúinn til þess að vera með í þessum nýja kór sem þá var stofnaður með formlegum hætti. Einn var þó vandinn að enginn var kórstjórinn. Eftir nokkra stjórnlausa mánuði fréttist af ákaflega hæfum kórstjóra sem æskilegt væri að lokka í verkið. Helgu Margréti Marzellíusardóttur var boðið að koma í viðtal um spennandi starf kórstjóra. Það þurfti að ganga töluvert á eftir henni, en að lokum kom hún í viðtal og þá var ekki aftur snúið. Hún er fyrsti og eini kórstjóri Hinsegin kórsins og hefur mótað stóran hóp sem kemur glaður saman til söngs.

Hver er tilgangur kórsins og hvað eru margir í honum?

Tilgangur kórsins er að vera fordómalaus vettvangur fólks til að hittast og njóta söngs saman. Þá vill kórinn vinna að þátttöku hinsegin fólks í menningarlífinu, vera jákvæð fyrirmynd og stuðla að sýnileika hinsegin fólks.  Eins og fram kemur á facebook síðu hópsins. Í kórnum starfa að jafnaði 60-70 félagar. Reglulega bætist í hópinn en tvisvar sinnum á ári hafa verið raddprufur og nýtt söngfólk gengið til liðs við kórinn.

Hverskonar lög syngið þið og er eitthvað eitt lag sem er skemmtilegast að syngja?

Fjölbreytileiki gæti verið eitt af einkunnarorðum kórsins. Við leitumst við að syngja fjölbreytta tegund tónlistar, hvort sem um er að ræða sönglög sem gera kröfur um klassískan söng og stillilega framkomu eða popplög sem draga fram stuðboltana innra með okkur. Við leitumst við að tengja öll lög sem við syngjum við okkur sjálf, söngfólkið. Þannig finnst okkur auðveldara að koma tónlistinni til áheyrandann með öllum töfrum tónlistarinnar, bæði þeim sem felast í vönduðum flutningi sem eyrun nema og líka þeim sem tilfinningarnar skynja frekar.

Þetta getur verið flókið og krefst mikils af hverjum og einum. Það hefur sýnt sig að uppáhaldslögin okkar verða oft einmitt þau sem mest þurfti að hafa fyrir á æfingatímanum. En svona fyrir jólin er alltaf mikil stemmning að syngja It’s beginning to look a lot like Christmas eftir Meredith Willson í útsetningu Mark Heyes.

Er kórinn kominn í jólaskap og við hverju má fólk búast á tónleikunum?

Kórinn er í hátíðarskapi. Fólk má búast við mikilli gleði, hljómsveit, dansi og söng og glitrandi hamingju og hátíðleika. Lagavalið er fjölbreytt og litríkt eins og við sjálf, hefðbundin jólalög, ballöður og diskó sem enginn tengir jólum. Þessir tónleikar verða eins og allir tónleikar kórsins upplifun bæði fyrir augu og eyru sem leikur á allan tilfinningaskalann.

Hvað ber nánasta framtíð í skauti sér og eitthvað að lokum ?

Í kórnum ríkir gríðarlegur metnaður. Við syngjum saman á æfingum að lágmarki einu sinni í viku og undirbúum okkur heima líka. Tónleikadagar eru hápunktur mikillar vinnu og undirbúnings. En um leið og þeim lýkur hefjumst við handa við ný verkefni. Í maí munum við taka þátt í risastóru kóramóti í München. Þar koma saman um 3500 söngvarar úr hinsegin kórum héðan og þaðan úr heiminum. Við erum stolt af því að hafa verið valin sem einn þeirra kóra sem taka þátt í galatónleikum hátíðarinnar undir kjörorðinu München in space!

Hægt er að nálgast miða á tónleikanan á Tix.is

Facebook viðburðinn má sjá hér.

Skrifaðu ummæli