JOHN ABERCROMBIE TRIBUTE Á MÚLANUM

0

Á næstu tónleikum haustdagskrár Jazzklúbbsins Múlans, á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu, miðvikudaginn 22. nóvember mun kvartettinn John Abercrombie Tribute koma fram. Kvartettinn leikur tónlist eftir gítarleikarann John Abercrombie sem lést í lok ágúst á þessu ári. Abercrombie var mikill áhrifavaldur í sögu jazzgítarsins og eru margar af plötum hans fyrir ECM útgáfuna meðal merkustu jazzplatna síðustu áratuga. Gítarleikararnir Andrés Þór Gunnlaugsson og Hilmar Jensson ætla að heiðra minningu þessa meistara ásamt Þorgrími Jónssyni bassaleikara og Scott McLemore sem leikur á trommur.

Alls ellefu spennandi tónleikar verða á dagskránni alla miðvikudaga fram í byrjun desember. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is

Múlinn er á sínu 21. starfsár en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg, Tónlistarsjóðnum og SUT sjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Skrifaðu ummæli