JÓEL PÁLSSON SENDIR FRÁ SÉR HLJÓMPLÖTUNA „INNRI“

0

joel 1

Út er komin hljómplatan „Innri“ með Jóel Pálssyni og Stórsveit Reykjavíkur.  Á plötunni eru tíu verk Jóels í flutningi Stórsveitarinnar en útsetningar eru í höndum Kjartans Valdemarssonar.  Jóel og Kjartan hafa verið meðlimir sveitarinnar um árabil en að þessu sinni stígur Kjartan upp úr píanóstólnum og stjórnar sveitinni.

innri_digipack

Jóel Pálsson hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi á undanförnum árum og tekið þátt í fjölmörgum verkefnum á ólíkum sviðum tónlistar.  Jóel hefur leikið á fjölda hljómplatna með listamönnum úr ýmsum áttum og komið fram í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og Kína á tónleikum og tónlistarhátíðum. Jóel hefur gefið út plöturnar Prím, Klif, Septett, Varp og Horn með frumsaminni tónlist auk platna sem hann hefur unnið í samstarfi við aðra; Stikur (m.Sigurði Flosasyni) og Skuggsjá (m.Eyþóri Gunnarssyni). Tónlist Jóels hefur m.a. verið gefin út af Naxos hljómplötufyrirtækinu í 40 löndum.

Jóel hefur hlotið íslensku tónlistarverðlaunin fimm sinnum, þ.á.m. fyrir jazzhljómplötu ársins fjórum sinnum og hann var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2011. Jóel stofnaði hönnunarfyrirtækið Farmers Market – Iceland ásamt eiginkonu sinni Bergþóru Guðnadóttur 2005 og sinnir rekstri þess meðfram tónlistarstörfum sínum.

joel 4

Stórsveit Reykjavíkur var stofnuð í febrúar árið 1992.  Hljómsveitin hefur starfað án fasts aðalstjórnanda en fengið til liðs við sig fjölmarga innlenda og erlenda stjórnendur. Þeirra á meðal eru mörg af þekktustu nöfnum heimsins á þessu sviði s.s. Maria Schneider, Frank Foster, Bob Mintzer og Bill Holman. Ýmsir norrænir gestir hafa einnig komið við sögu sveitarinnar. Þeirra á meðal eru t.d. Ole Koch-Hansen, Jens Winther og Eero Koivistoinen. Stórsveit Reykjavíkur hefur leitast við að hafa verkefna val sitt fjölbreytt. Auk nýrrar tónlistar, bæði innlendrar og erlendrar, hefur hljómsveitin flutt sögulegar efnisskrár tengdar einstökum höfundum og hljómsveitum. Hún hefur einnig átt mikið og farsælt samstarf við fjölmarga íslenska söngvara úr heimi popptónlistarinnar.

Stórsveit Reykjavíkur hefur fengið afbragðs dóma gagnrýnenda fyrir leik sinn. Sveitin hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin 2005 sem jazzflytjandi ársins og 2011 og 2014 fyrir jazzplötu ársins. Stórsveitin hefur sent frá sér fimm geisladiska í eigin nafni, auk þess að koma fram nokkrum diskum annarra flytjenda, þeirra á meðal Bubba Morthens og Sálarinnar hans Jóns míns.

Útgáfutónleikar verða í Silfurbergi Hörpu mánudaginn 2.nóvember kl.20:00

Útgefandi er Flugur ehf en 12 Tónar sjá um dreifingu.

Comments are closed.