JAKOB SMÁRI MAGNÚSSON

0

jakob-9

Jakob Smári Magnússon er einn helsti bassaleikari þjóðarinnar og þó víðar væri leitað. Tappi Tíkarass, Grafík og SSSól eru allt hljómsveitir sem Jakob hefur verið meðlimur í en í dag spilar hann á bassa í hljómsveitinni hanns John Grant. Jakob er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hann okkur frá hvernig hanns tónlistaráhugi byrjaði, þegar hann var kominn með leið á spilamennsku og ætlaði að leggja bassann á hilluna, hvernig það er að túra út um allan heim og spila með John Grant svo fátt sé nefnt.


Hvernig byrjaði þinn tónlistaráhugi og hvað var það sem fékk þig til að byrja í hljómsveitarbraskinu?

Ég hef haft áhuga á tónlist frá því ég var krakki. Þegar ég var sirka 6 ára sagði ég við mömmu að ég ætlaði að verða Paul McCartney þegar ég yrði stór, þannig að þetta hefur blundað í mér frá blautu barnsbeini. Ég var ekki beint vinsælasti gaurinn í hópnum í grunnskóla og átti fáa vini. Ég var frekar mikill lúði sjáðu til. Ég held að ástæðan að ég fór útí þetta hafi verið einhver þörf á viðurkenningu og athygli og vegna áhuga míns á tónlist valdi ég þá leið frekar en íþróttir eða eitthvað annað athyglisgefandi.

jakob-10

LJÓSMYNDIR: HAFSTEINN VIÐAR ÁRSÆLSSON FYRIR ALBUMM.IS

Hvað er það við bassann sem heillar þig og hefur bassinn alltaf verið þitt aðal hljóðfæri?

Þegar Stranglers komu til landsins árið 1978 uppgötvaði ég bassann. Jean Jacques Burnel bassaleikari var mikill töffari og mig langaði að verða eins og hann, það var ekki lengur Paul McCartney. Það er eitthvað við sándið í bassanum sem heillar mig. Þessar djúpu nótur eru bara svo sexý. Möguleikarnir eru líka miklir með þetta hljóðfæri að vopni.

jakob-5

LJÓSMYNDIR: HAFSTEINN VIÐAR ÁRSÆLSSON FYRIR ALBUMM.IS

Bassajól er plata eða plötur sem þú hefur sent frá þér þar sem þú spilar jólalög eingöngu á bassa, hvernig kviknaði sú stórskemmtilega hugmynd?

Ég spilaði í tæpt ár með Sniglabandinu. Hugmyndin að Bassajólum kviknaði á einu af fyrstu giggunum með þeim. Það var Pálmi Sigurhjartarson hljómborðsleikari sem skaut þessu að mér í einhverjum fíflagangi. Þetta spurðist út og fólk var alltaf að spyrja mig hvenær ég ætlaði að gera Bassajól. Ég ætlaði aldrei að gera Bassajól en átta árum eftir að hugmyndin fæddist ákvað ég loks að kýla á þetta. Platan var tekin upp í Nóvember, að mestu heima hjá mér, og gefin út í Desember. Hún var ekki mixuð eða masteruð. Þetta var allt unnið mjög hratt. Viðbrögðin voru betri en ég átti von á og hún seldist upp. Ég ákvað að í stað þess að endurútgefa plötuna að gera bara aðra, Annar Í Bassajólum og vanda mig aðeins betur.

Nú ert þú í hljómsveitinni hanns John Grant hvernig kom það til og hvernig er að vera í hljómsveit sem nýtur slíkra vinsælda útum allan heim?

Það er frábært. Þetta tækifæri kom til mín á erfiðum tíma í lífi mínu og ég ætlaði að leggja bassann á hilluna. Var búinn að fá algjört ógeð á ballbransanum sem ég var fastur í. John söng lag með SSSÓL í sjónvarpsþættinum Hljómskálanum, en þar hitti ég hann fyrst. Rúmum mánuði seinna hafði hann samband við mig og spurði hvort ég væri til í að spila nokkur lög á nýrri plötu sem hann var að taka upp hér heima. Ég sló til og í framhaldinu fékk hann mig, Pétur Hallgrímsson og Arnar Geir Ómarsson trommara í HAM til að spila með sér í Austurbæ og vildi svo fá okkur með sér að túra með sér um heiminn. Ég var á þeim tíma farinn að starfa sem sölumaður hjá heildverslun og tilbúinn að gefa bassanum frí. Bassaleikurinn átti að verða áhugamál en ekki atvinna. Þetta var hins vegar eitthvað sem ég gat ekki hafnað. Það má segja að ferillinn minn hafi fengið óvænt framhaldslíf og flogið með mig í nýjar hæðir. Þetta er búinn að vera mjög skemmtilegur tími. Stundum erfitt, en oftast gaman.

Hvernig er ferðalögunum háttað og finnst þér ferðalögin skemmtileg?

Við ferðumst um í tveggja hæða rútu sem verður heimili okkar á meðan á túr stendur. Á frídögum gistum við á hótelum. Við keyrum yfirleitt á nóttunni þannig að maður vaknar í nýrri borg, jafnvel nýju landi. Stundum er þetta eins og í Groundhog day, alltaf sama rútínan. En engir tveir tónleikar eru eins. Það er skemmtilegasti parturinn við þetta. Mér finnst þetta skemmtilegt líf. Tekur reyndar stundum á að vera lengi í burtu frá fjölskyldunni en það er einhver partur af mér sem fílar þetta. Það eru forréttindi að fá að starfa við það sem manni finnst skemmtilegt.

jakob-11

LJÓSMYNDIR: HAFSTEINN VIÐAR ÁRSÆLSSON FYRIR ALBUMM.IS

Þú hefur verið í og spilað með ótal mörgum hljómsveitum eins og Tappa Tíkarass, Grafík og SSSól svo fátt sé nefnt er eitthvað eitt band sem þér finnast standa upp úr og ef svo er afhverju?

Að spila með John Grant stendur uppúr. Hann var orðinn einn af mínum uppáhalds tónlistamönnum áður en ég fór að spila með honum. Þarna hef ég fengið tækifæri til að spila útum víða veröld á stöðum sem mig hafði ekki einu sinni dreymt um. Svo hef ég fengið tækifæri til að spila með fullt af frábæru fólki sem hefur komið fram með okkur, eins og t.d. Sinead O´Connor, Richard Hawley að ógleymdum trommuleikaranum Budgie ( Siouxie and The Banchees, The Creatures ) sem gekk til liðs við okkur í fyrra. Hann er gamalt idol og frábært að fá að vinna með honum. Það er líka frábært að spila fyrir fólk sem er komið til að hlusta og er jafnvel búið að bíða í margar vikur eða mánuði eftir að komast á viðkomandi tónleika. Það er æðislegt að sjá eftirvæntinguna og gleðina í andlitum tónleikagesta.

Nú hefur þú spilað á þúsundir tónleika eru einhverjir tónleikar sem eru hvað minnisstæðastir og hvað gerir góða tónleika að þínu mati?

Mér dettur strax í hug tónleikar með John Grant í Hammersmith Appolo í haust. Ég sá Iron Maiden í þessu sama húsi árið 1983 og hefði ekki órað fyrir því að eiga eftir að spila þarna nokkrum árum síðar. Það var uppselt og geggjuð stemning. Rafmagnað andrúmsloft. Það sem skiptir mestu máli er að maður sé að spila skemmtilega tónlist með góðu fólki fyrir fólk sem er komið til að hlusta. Auðvitað spila inní hlutir eins og gott sánd og tónleikastaðirnir sjálfir eru misskemmtilegir. Mér finnst skemmtilegast að spila fyrir standandi crowd. Góðir tónleikar eru samvinna hljómsveitar, tæknimanna og áhorfenda. Það er hin heilaga þrenning sem gerir góða tónleika.

jakob-12

LJÓSMYNDIR: HAFSTEINN VIÐAR ÁRSÆLSSON FYRIR ALBUMM.IS

Þú ert búinn að vera talsvert lengi í tónlistarbransanum og hlýtur því að luma á einni góðri rokk sögu?

Eitthvað prenthæft? Sagan af því þegar ég hætti í Grafík vekur alltaf lukku. Þannig var að við vorum að spila á balli í Félagsstofnun Stúdenta. Það var hörkustemning og þegar við ætluðum að hætta klukkan þrjú vorum við klappaðir upp. Við sinntum því auðvitað og töldum í lagið Tangó sem var vinsælt á þeim tíma. Bassinn minn var orðinn falskur og ég náði ekki að stilla hann áður en talið var í lagið þannig að ég lenti í vandræðum. Hjörtur Howser með sinn húmor kallaði á mig glottandi og sagði: „Lagið er í h“ eins og hann væri að saka mig um að kunna ekki lagið. Það fauk í mig. Ég pakkaði saman bassanum og gekk útúr húsinu þvert yfir salinn og hætti í bandinu við undirleik hljómsveitarinnar sem kláraði lagið. „Ó hve ég hef saknað þín“ söng Helgi á meðan ég labbaði út.

jakob-13

LJÓSMYNDIR: HAFSTEINN VIÐAR ÁRSÆLSSON FYRIR ALBUMM.IS

Hvað er framundan hjá þér?

Áframhaldandi spilamennska með John Grant. Við erum að fara til Asíu og Ástralíu á næstu vikum og sumarið er þétt bókað af festivölum. Við verðum líka með tónleika í Royal Albert Hall í sumar sem er spennandi. Svo má líka geta þess að við höfum verið að hittast í sirka ár félagar í fyrstu hljómsveitinni minni, Tappa Tíkarrass, þ.e.a.s. ég, Eyþór Arnalds, Eyjó gítarleikari og Gummi trommari. Við áttum ýmislegt óklárað á sínum tíma og höfum verið uppteknir við annað undanfarna áratugi. Loks fannst tími og við töldum í. Ætlunin var nú bara að rifja upp og klára nokkur lög sem við sömdum 1981, en þegar við vorum búnir að rifja upp það sem við mundum vorum við komnir í svo mikið stuð að við fórum að semja nýtt efni. Við erum búnir að fara í stúdíó og taka upp þessi nýju lög og ætlunin er að taka upp einhver af þessum gömlu lögum líka. Svo sjáum við bara til hvað gerist. Þetta er mjög skemmtilegt. Það er fátt skemmtilegra en að búa til eigin músik og spila hana. En ég veit ekkert hvert þetta leiðir okkur. Kannski til glötunnar? Þegar ég er ekki að spila er ég að vinna hjá litlu fyrirtæki sem ég og konan mín rekum. Fyrirtækið heitir Pentagon og við tökum að okkur að sjá um samfélagsmiðla fyrir fyrirtæki. Það er gott að hafa eitthvað annað en tónlistina til að grípa í á milli túra. Það heldur manni á jörðinni.

Comments are closed.