IVY LAB TRYLLA LANDANN Á FIMM ÁRA AFMÆLI HAUSA

0

Ivy Lab eru á leið til landsins og munu koma fram á Paloma 2. september í tilefni 5 ára afmælis Hausa. Stray, Sabre og Halogenix mynda hópinn Ivy Lab frá London sem kom saman vegna sameiginlegs áhuga á tilraunakenndri drum & bass tónlist. Í dag eru þeir taldir meðal fremstu half time listamanna heims sem má lýsa sem blöndu af hip hop, drum & bass og electronica.

Árið 2015 var sérstaklega gott fyrir Ivy Lab því remix af lagi þeirra Sunday Crunk var mest selda drum & bass lag ársins á Beatport og unnu þeir sér sæti á topp 10 lista Mixmag yfir bestu plötusnúða 2015. Þeir gáfu út mixteipið „Ivy Lab presents 20/20 Volume.1” á sínu eigin útgáfufyrirtæki 20/20 LDN sama ár sem fékk 9 af 10 í einkunn hjá bæði DJ Mag og Mixmag. Skífunni var fylgt eftir með Volume.2 árið 2017 sem þótti ekki síðri og var Poseidon með hinum íslenska Balatron eitt af lögunum þar.

Þeir hafa unnið með mörgum af stærstu nöfnum drum & bass senunnar, þar á meðal Goldie, Noisia, TC, Alix Perez, Sub Focus, The Upbeats og Shield og komið fram á tónlistarhátíðum eins og Glastonbury, Sonar og á aðalsviðum Exit og Outlook festival.

Það er drum & bass hópurinn Hausar sem stendur fyrir komu Ivy Lab til landsins. Síðustu 5 ára hafa Hausar haldið klúbbakvöld í Reykjavík ásamt vikulegum útvarpsþætti á Kiss FM Xtra 104,5 og fagna áfanganum með risa kvöldi á Paloma.

Ásamt Ivy Lab koma fram Bjarni Ben, Croax, Nightshock, Untitled og Junglizt. Kvöldið hefst kl. 22:00 á Paloma og stendur til 4:30 um morguninn. Aðgangur er ókeypis.

2020ldn.com

Skrifaðu ummæli