ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNIN OG ALBUMM.IS KYNNA MYNDBAND ÁRSINS

0

Íslensku tónlistarverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn þann 2. mars næstkomandi í Silfurbergi í Hörpu. Albumm.is og Íslensku tónlistarverðlaunin leiða nú saman hesta sína og munu annast tilnefningar og val á Tónlistarmyndbandi ársins.

Í dag verða tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna gerðar opinberar og leitar Albumm.is aðstoð lesenda sinna við að velja Tónlistarmyndband ársins. Val almennings kemur til með að gilda til móts við val dómnefndar sem er skipuð af Albumm.is og stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Upp úr kl 16:00 í dag verður tilkynnt í Hörpu hverjir það eru sem hljóta tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2016. Hér fyrir neðan má sjá þau myndbönd sem tilnefnd eru í flokki myndband ársins 2016. Þú kýst þitt uppáhalds myndband með því að skella á Like fyrir neðan myndbandið!

Kaleo Save Yourself / Myndband: Eyk Studio.

Myndband Kaleo við lagið Save Yourself nær vel að fanga fegurð Fjallsárlóns og ljóst er að hljómsveitin nýtur sín fullkomlega við flutning sinn standandi á ísjaka úti í miðju lóni. Tregafullt lagið fellur vel að myndmálinu sem gæti vart verið þjóðlegra en um leið er öll umgjörð sannfærandi og svöl.

Emmsjé Gauti – Reykjavík / Myndband: Tjarnargatan ehf.

Það er ekki líklegt að Emmsjé Gauti og félagar hans séu lofthræddir því myndbandið við Reykjavík er fimleg flugferð um þök þekktra bygginga í Reykjavík. Virkilega vel uppbyggt myndband  sem er hvort um sig spennandi og vel útfært ferðalag um Reykjavík þvera og endilanga við eitt af lögum ársins.

Friðrik Dór – Dönsum / Myndband: Jakob Gabríel Þórhallsson.

Með ótrúlegri hæfni og frumleika nær Jakob Gabríel að gera litríka veislu fyrir augað sem hæfir taktföstum smelli Friðriks Dór fullkomlega. Dönsum (eins og hálfvitar) er myndband sem hittir í mark og er gott dæmi um góða hugmynd sem gengur upp.

 Sigur Rós – Óveður / Myndband: Jonas Åkerlund.

Hljómsveitin Sigur Rós hefur oft áður sent frá sér stórbrotin myndbönd á litríkum ferli sínum. Óveður fer tvímælalaust í flokk með eftirminnilegri og áhrifameiri verka þeirra og er það ekki síst fyrir frábæra túlkun og dans Ernu Ómarsdóttur sem fer á algjörum kostum.

Axel Flóvent – Your Ghost / Myndband: Niels Bourgonje.

Your Ghost er afar fallegt og áhrifaríkt myndband við ljúfsárt lag Axel Flóvent. Myndbandið nær að fanga áhorfandann þar sem það kallast á við gamla tíma, náttúrufegurð og sveitarómantík en um leið vekja upp hlýjar tilfinningar.

Júníus Meyvant – Neon Experience / Myndband: Hannes Þór Arason.

Júníus Meyvant svífur hér um á hjólabrettinu sínu og fer með áhorfandann í skemmtilegt ferðalag um Heimaey í fallega innrömmuðu myndbandi sem smellpassar við hrynfagurt lagið Neon Experience þar sem skilaboðin eru einfaldlega þau að horfðu björtum augum á lífið því á morgun er nýr dagur með ný ævintýri.

One Week Wonder – Mars / Myndband: Tjarnargatan ehf.

Sögur af geimferðum eru ekki algengar í íslenskum tónlistarmyndböndum en í laginu Mars er farið alla leið með söguna um einmana bókasafnsvörð sem dreymir um dularfullar stjörnur í órafjarlægð og ferðalög um himingeiminn. Frumlegt og fagmannlega gert myndband sem nær að segja góða sögu á áhrifaríkan hátt.  

Samaris – wanted 2 say / Myndband: Þóra Hilmarsdóttir.

Myndbandið við Wanted 2 Say nær að fanga áhorfandann frá fyrstu mínútu. Sá dularfulli og djarfi taktur sem umlykur lagið er spunninn faglega inn í myndbandið með frábærum dansrútínum sem og æsispennandi söguþræði þar sem dökkrauður máninn ærir og dregur á tálar.

Sin Fang (Feat Jónsi) – Candyland / Myndband: Ingibjörg Birgisdóttir.

Myndbandið við lagið Candyland frá Sin Fang er listalega úr garði gert. Draumkenndur sýndarveruleiki og ævintýralendur myndbandsins eru jafnsætar og kandífloss um leið og þær eru eins og viðsjárvert Húbbabúbba-tyggjó sem engin leið er að losna við. Stórbrotið ævintýri og myndbandagerð á háu plani.

GKR – Meira / Myndband: GKR.

Lagið Meira frá GKR er algjör negla og myndbandið passar svo sannarlega vel við lag og texta. Krafturinn er keyrður í botn og GKR geislar af sjálfsöryggi. Hér er ekki verið að slaka á því nóg er aldrei nóg og það fer ekki á milli mála þegar á er horft.

Skrifaðu ummæli