ÍSLENSKAR JÓLAPLÖTUR

0

Það er óhætt að segja eitt um blessuð jólin, þau koma á hverju ári. Eins og kaninn segir svo oft, „if you can´t beat them join them“ á einstaklega vel við á þessum árstíma. Þess vegna bíð ég ykkur lesendur góðir að rölta með mér niður minningarstrætið og skoða nokkur íslensk jólaplötu umslög sem þið hafið eflaust rekist á heima hjá ykkur eða hjá frænku ykkar, ömmu og afa jafnvel eða bara alls ekki.

Í safninu mínu er ég með sér stað fyrir allar jólaplöturnar. Þær eru misgóðar en allar hafa þær eitthvað þó það sé ekki nema bara coverið. Hér eru nokkrar af handahófi sem eru allar stórkostlegar á sinn hátt. Ekkert fræðilegt við þessa umfjöllun, ekki frekar en venjulega svo sem. Bara einhver jólafílingur sem hvatti mig til að deila þessu með ykkur. Það er hugurinn sem gildir ekki satt?

 

Svanhildur – Jólin Jólin.

Þetta er killer plata þar sem Ólafur Gaukur sér um útsetningar og hljómsveitastjórn. Meistarinn Ólafur klikkar ekki í jólalögunum frekar en í öðrum lögum. Þetta cover er líka grand! Einfaldleiki þess fær mann til að gleyma hversdagslegum áhyggjum, það sama má segja um tónlistina á plötunni. Sjáir þú þessa, keyptu hana þá!

FullSizeRender

Guðmundur Rúnar Lúðvíksson – Í Skóinn

Ég er sennilega hrifnari af þessu coveri heldur en plötunni sjálfri. Ég vona svo innilega að þessi mynd hafi verið á jólakortinu frá Guðmundi Rúnari árið sem hún var tekin. Algjör bilun.

FullSizeRender (1)

Jólastjörnur.

Sannkallaðar jólastjörnur þarna á ferð. Stundum halla ég mér aftur, stari á Jólastjörnurnar og ímynda mér hversu mikill eðall það hafi verið að vera í partýi með þessu gengi árið 1976 þegar þessi gripur kom út.

FullSizeRender (2)

PÖBB-INN Rockola – Jólasöngvar.

Allt mjög ruglingslegt við þessa 45 snúninga útgáfu. Á bakhlið albúmsins heitir hljómsveitin Pöbb bandið Rockola. Ég held að það hafi ekki verið jafn gaman í partýi með þessum gaurum og Jólastjörnunum.

FullSizeRender (3)

Jólastemma með Didda fiðlu.

Meistari Diddi fiðla er þarna eins og einhver ofdekraður, spilltur kóngur í þáttunum Vikings eða Game of Thrones, einhver sem yrði tekinn af lífi nokkrum þáttum eftir að hann birtist fyrst í þeim.

FullSizeRender (4)

Gáttaþefur – Á Jólaskemmtun með börnunum.

Gáttaþefurinn hans Ómars Ragnarssonar var alltaf vafasamur en eiturhress. Hann er hálf skömmustulegur á þessari jólaskemmtun með börnunum.

FullSizeRender (7)

Gáttaþefur í glöðum hópi.

Ég veit ekki hversu glaður þessi hópur var sem Gáttaþefur var búinn að troða sér þar inn í. Veit ekki hvað hann hefur verið að segja við blessaðan drenginn þarna en einhyrningurinn fyrir aftan hann lýst ekkert á blikuna! En það eru topplög á þessari plötu eins og Óli Drjóli, Já, auðvitað krakkar, Ég set góðgæti í skóinn og ekki má gleyma Kennið mér krakkar.

FullSizeRender (8)

Katla María – Ég fæ jólagjöf.

Þarna er það aftur Ólafur Gaukur sem útsetur og stjórnar öllu. Í þetta skiptið með Kötlu Maríu sem aðal. Ég hef alltaf haldið með Kötlu Maríu. Góður fílingur á þessari.

FullSizeRender (9)

Jólaball með Dengsa og félögum.

Það er alveg dagsatt, er aðallagið á þessari plötu, þekktasta lagið og fyrsta lagið. Restin af plötunni er sturlun.

FullSizeRender (10)

Jólastund.

Toppnæs safnplata. Umslagið er sérstakt. Hugsið ykkur að í einhverju ljósmyndastúdíóinu hefur þessu drasli verið stillt upp, einhver hefur smellt af og sagt: „Þetta er komið, myndin á umslagið er komin. Sendið þessa filmu beint niðrí Steinar HF!!!“

FullSizeRender (11)

Brunaliðið – Með eld í hjarta.

Þetta er án nokkurs vafa ein besta íslenska jólaplata fyrr og síðar. Þessi á að vera til á hverju einasta heimili!

FullSizeRender (5)

Í hátíðarskap.

Á tímum allra þessara jólatónleika, uppákoma og hlaðborða, af hverju í ósköpunum er þessum hópi þá ekki smalað saman og látin taka þessa plötu í heild sinni í Eldborgarsal Hörpu, þó það væri ekki nema á Kringlukránni eða Spot í Kópavogi sem væri jafnvel ennþá betra!!!

FullSizeRender (6)

Höfundur: Andri Freyr Viðarsson

Comments are closed.