ÍSLENSKA TORFÆRAN RÆÐST INN Í BANDARÍKIN

0

Andri Freyr í góðum gír við tökur á sinni fyrstu heimildarmynd í fullri lengd „Spólað Yfir Hafið.“

Fjölmiðlamaðurinn Andri Freyr Viðarsson er ekki við eina fjölina kenndur en á morgun kemur út hans fyrsta heimildarmynd í fullri lengd. Myndin heitir „Spólað yfir hafið“ og fjallar um torfærukarla og för þeirra í krummaskuð í Dyersburg, Tennessee í bandaríkjunum þar sem kept var á svæði sem heitir Bikini Bottom Offroad park. Myndin er framleidd af Republik Film Productions og RUV.

Spólað yfir hafið fjallar ekki beint um bílana sjálfa heldur fólkið á bakvið þá og ferðalagið mikla. Óhætt er að segja að viðfangsefnið sé afar áhugavert en það má búast við öllum skalanum, hlátri og gráti, drama og spennu!

Frá og með 20. apríl verður myndin til sýningar í Bíó Paradís og með enskum texta í þokkabót, en enski titill myndarinnar er „From Top To Bottoms.“

Albumm.is náði tali af Andra og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um myndina og framhaldið.


Hvernig kviknaði sú hugmynd að gera heimildarmynd um íslenska torfærukarla í Ameríku?

Ég hef alltaf verið heillaður af fólki í torfæru. Þegar ég var lítill fór ég nokkrum sinnum á torfæruna fyrir austan og fanst það geðveikt. Fannst allir bílstjórarnir mega kúl og þá sérstaklega Árni Kóps. Í seinni tíð hef ég fylgst svolítið með þáttunum Motorhaus á N4 en þá aðalega verið að pæla í viðtölunum og þá sérstaklega í aðstoðarmönnum ökumannana sem er sérstakur þjóðflokkur út á fyrir sig.

Fyrir tveimur árum var ég beðinn um að vera kynnir á torfærunni fyrir austan, þar með varð gamall draumur að veruleika. Nema hvað, kynnastarfinu fylgdi líka verðlaunaafhending seinna um kvöldið. Þá fyrst sá ég hversu miklir snillingar þetta fólk er. Klukkan var átta að kvöldi þegar ég kom að staðnum þar sem afhendingin átti að fara fram og þar voru bílstjórar og aðstoðarmenn fyrir utan í gamnislag. Þegar afhendingin hófst var mikið um frammíköll og mótmæli. Þetta þótti mér mjög heillandi og hugsaði strax, afhverju það er ekki búið að gera heimildarmynd um þessa snillinga sem vinna myrkrana á milli, alla daga vikunnar við að tjasla saman bílunum sínum til þess eins að rústa þeim í næstu keppni og koma út í bullandi mínus! Þarna er ástríða í gangi sem finnst ekki hvar sem er, einnig mikil samheldni og bræðralag. Allt við þetta er mjög fallegt.

Ári eftir þessa uppákomu rakst ég á Davíð Loga sem réð mig í kynnastarfið og hann sagði mér að hann ásamt fjórtán bílstjórum og crewi væru á leiðinni í krummaskuð í Tennessee í Bandaríkjunum, bæ sem heitir Dyersburg og þar á svæði sem heitir Bikini Bottom Offroad park. Þetta fanst mér sturlað! Það sem meira var að lifandi góðsögnin Árni Kópsson ætlaði líka með og ekki nóg með það, því hann ætlaði að smíða Heimasætuna sína upp á nýtt og fara með hana út til að keppa. Þetta gat ekki orðið neitt annað en heimildarmynd.

Ameríkanarnir áttu varla aukatekið orð!

Þetta er þín fyrsta heimildarmynd í fullri lengd, kom þér eittvað á óvart í vinnuferlinu?

Nei, í rauninni ekki. Ég hef náttúrlega gert sex sjónvarpsþáttaseríur og hafði ágæta hugmynd um hvernig þetta myndi ganga fyrir sig.

Andri Freyr segir að Það voru algjör forréttindi að fá að fara inn í þennan heim og loksins fengið að fara til alvöru Bandaríkjanna!

Hvernig tóku Ameríkanarnir íslensku torfæru kóngunum?

Ameríkanarnir áttu varla aukatekið orð. Bæði voru þeir gáttaðir á bílunum sem Íslendingarnir höfðu smíðað, dugnaðinum í þjónustuliðunum og síðast en ekki síst heilluðust þeir að dirfsku og færni bílstjóranna. Við getum sagt að þessu var svo vel tekið að það verður önnur keppni í ár og ekki nóg með það því stór amerísk sjónvarpsstöð er búin að tryggja sér sýningaréttinn á viðburðinum.

Þarna snýst allt um byssur, fjórhjól, smekkbuxur, suðurríkjafánann, Trump og moonshine.

Hvernig var að fara inn í þennan heim í Ameríku og hvernig var viðmótið gagnvart Íslendingunum?

Það voru algjör forréttindi að fá að fara inn í þennan heim. Dyersburg, Tennessee er mjög sérstakur bær fyrir okkur íslendinga en fyrir ameríkanann er þetta eflaust eins og hver annar smábær í suðurríkjunum, en algjört bíó fyrir okkur. Þarna snýst allt um byssur, fjórhjól, smekkbuxur, suðurríkjafánann, Trump og moonshine, en viðmótið var frábært. Ég var í þessum bæ ásamt tökumönnum í heila viku, fyrst spurðu bæjarbúar alltaf: „What the hell are you doing in Dyersburg?“ Svo efti nokkra daga var spurningin alltaf þessi: „Is everybody treating you ok?“ En fólkið þarna var mjög indælt og vildi allt fyrir okkur gera og maturinn þarna var sérstaklega góður. Ég hef oft farið til Bandaríkjanna en eftir þessa ferð finnst mér eins og ég hafi loksins farið til alvöru Bandaríkjanna, ekki einhverja hypstera borga sem eru undir áhrifum evrópskra borga. Gæti ekki mælt nógu mikið með því að fólk fari til Tennessee og bara suðurríkjanna yfir höfuð.

Um hvað er myndin og við hverju meiga áhorfendur búast?

Myndin er um fólkið á bak við bílana og innrás íslensku torfærunna inn í Ameríku. Þetta var nefnilega í fyrsta skiptið sem keppt er í þessu sér íslenska sporti þar. En eins og ég segi þá eru bílarnir og keppnin aukaatriði, þetta er svokölluð „human interest story.“ En þar sem myndin er núna tilbúin þá er óhætt að segja að þetta sé allur pakkinn, það verður, hlátur og grátur, drama og spenna.

Hvenær og hvar verður myndin sýnd?

Myndin fer í almenna sýningu í Bíó Paradís 20.apríl næstkomandi, í takmarkaðann tíma. Í guðs bænum skellið ykkur á hana!

Hvað er næsta verkefni og eitthvað að lokum?

Núna er ég að vinna hjá Republik Film Production við að gera sjónvarpsþætti og heimildarmyndir þannig að það eru nokkur járn í eldinum. Mjög bráðlega munu þið sjá tónleika/heimildarmynd um hljómsveitina Retro Stefson sem ég og Árni Sveins erum að gera. Ég og Árni erum líka með smá leyniverkefni í vinnslu, heimildarmynd um íslenska Kántrýgoðsögn, nei ekki Hallbjörn. Svo í desember munu þið sjá jólaþætti á RUV sem koma til með að heita „Aðstoðarmenn Jólasveinanna.“ Meira get ég ekki tjáð mig um þetta mál að svo stöddu.

Skrifaðu ummæli