ÍSLAND OG ÍTALÍA MÆTAST Á TÓNLEIKUM Á KEX HOSTEL

0
Antimony 2016 by Ryan Ruth

Antimony. Ljósmynd/Ryan Ruth

Fyrstu tónleikar Antimony í Reykjavík eftir vel lukkaða upphitun fyrir Sigur Rós í London. Antimony hafa verið að feta sig uppá við í íslensku tónlistarlífi undanfarin misseri og halda þau sína fyrstu tónleika á KEX Hostel í kvöld föstudag, 12. ágúst, ásamt ítölsku sveitinni Nero Deep.

Antimony skipa kanadíska söngkonan  Rex Beckett, bassaleikarinn Birgir Sigurjón Birgisson og Sigurður Angantýsson sem sér um að rafvæða tóna Antimony í gegnum tölvur og hljómborð. Antimony blandar á skemmtilegan hátt drungalegum kynþokka David Lynch-kvikmynda við níunda áratugs nýrómantík.

Þríeykið spilaði nýverið á tónlistarhátíðinni Citadel í London þar sem þeim var boðið sérstaklega af Sigur Rós til að hita upp fyrir sig fyrir framan 40 þúsund manns.  Einnig hituðu Caribou, Calexico og Susanne Sundfør upp og er því óhætt að Antimony hafi verið í góðum hópi tónlistarfólks. Tónlistarferðasjóður KEX Hostel styrkti Antimony til ferðarinnar.

12 Nero Deep

Nero Deep

Nero Deep er kvartett frá Udine á Ítalíu og eru þau í sinni fyrstu ferð hingað til lands. Kvartettinn sækir áhrif til sveita á borð við Apparat, Massive Attack, Flying Lotus og This Will Destroy You og gáfu fyrir stuttu út þröngskífuna Restless Roots EP.

Nero Deep skipa þau Giulia Bettinelli sem syngur, gítarleikari er Marco Badini, Giacomo Santini spilar á bass og Christian Pevere sér um takta og aðra forritun.

Tónleikarnir eru fríkeypis og hefjast stundvíslega klukkan 21:00.

Comments are closed.