INGUNN HULD SENDIR FRÁ SÉR LAGIÐ UMVAFIN

0

INGUNN 2

Ingunn Huld er ung tónlistarkona en plata hennar Fjúk er væntanleg á þessu ári. Öll lögin eru á íslensku og fjalla þau um hinar og þessar vangaveltur tengdar lífinu, síbreytilegri tilverunni, tilfinningum og hádramatískri veðráttunni. Þetta verður einhvers konar einlæg en örlítið dramatísk þjóðlagapoppplata.

Textarnir á plötunni hafa orðið til á um tíu ára tímabili en lögin eru samin seinustu fjögur til fimm árin, flest þeirra í tengslum við burtfarartónleika Ingunnar frá Tónlistarskóla FÍH vorið 2013, þar sem hún lagði stund á jazzsöng. Það mætti segja að textarnir séu útgangspunktur sem lögin verða svo til í kringum, oft bara í gegnum spuna en það má finna raddspuna hér og þar á plötunni… og þar má finna smá tengingu við jazzinn.

INGUNN

Á plötunni spila all-star bandið Ásgeir Ásgeirsson, Birgir Bragason, Erik Qvick, Ólafur Schram, Hallgrímur Jónas Jensson, Unnur Birna Bassadóttir og Stefán Örn Gunnlaugsson en hann sér einnig um hljóðblöndun á plötunni. Upptökur fóru fram í Geimsteini hjá Birki Rafni Gíslasyni og hjá Stefáni Erni Gunnlaugssyni í Aldingarðinum. Bjarni Bragi Kjartansson sá um hljóðjöfnun á laginu Umvafin.

Umvafin var samið sumarið 2012 og tekið upp í Geimsteini og Aldingarðinum árið 2015.
Lag og texti: Ingunn Huld Sævarsdóttir

Comments are closed.