Iceland Airwaves er nauðsynleg fyrir íslenskt tónlistarlíf

0

Nú er kominn mánudagur og vægast sagt tryllt helgi að baki, sjálf Iceland Airwaves helgin! Á miðvikudaginn sem leið hófust herlegheitin og var dagskráin virkilega þétt setin og frábær í alla staði. Það mátti finna eitthvað fyrir alla hvort sem það var popp, rapp, rokk eða raftónlist sem er auðvitað frábært fyrir tónlistarhátíð sem þessa. Airwaves er svokölluð “showcase hátíð” þar sem bransa lið frá öllum heimshornum kíkir á klakann og sperrir upp augu og eyru til að finna mögulega framtíðar stórstjörnur.

Ég (Steinar Fjeldsted) man þegar ég kom fram á Iceland Airwaves árið 1999 með hljómsveit minni Quarashi en þá var hátíðin haldin í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli! Allskonar bransa lið var mætt til að tékka á íslensku böndunum en við Quarashi bræður vorum ekki mikið að spá í því. Nóg var að fríum veigum baksviðs sem gerði það að verkum að við vorum í mjög miklu stuði þegar stigið var upp á svið. Einnig fundum við gamla flugbúninga baksviðs og þótti okkur góð hugmynd að skella okkur í þá.

Eftir tónleikana gekk til okkar útlendingur sem tjáði okkur að hann væri mjög hrifinn af bandinu og væri mögulega til í að gera við okkur plötusamning. Enginn tók þessu alvarlega þangað til daginn eftir þegar sama fólkið hafði uppi á okkur og bauð okkur út að borða. Auðvitað var farið á dýrasta veitingahúsið og pantað besta kampavínið enda ekki á hverjum degi sem stórt plötufyrirtæki er tilbúið að borga brúsann! Til að gera langa sögu stutta þá lönduðum við Quarashi menn stórum plötusamning við Sony/Columbia Records sem þýðir aðeins eitt, þessi hátíð er nauðsynleg fyrir íslenskt tónlistarlíf og möguleikarnir eru endalausir!

Okkur hlakkar til hátíðarinnar á næsta ári og áfram íslensk tónlist! Hér fyrir neðan má sjá helling af ljósmyndum frá hátíðinni.

Ljósmyndir: Hafsteinn Snær Þorsteinsson fyrir Albumm.is

 

Icelandairwaves.is

 

Skrifaðu ummæli