ÍBBAGOGGUR OG ARNLJÓTUR SENDA FRÁ SÉR SJÖ TOMMU Á RECORD STORE DAY

0
arnljótur

Arnljótur. Ljósmynd: Daníel Starrason

Alþjóðlegi plötubúðardagurinn verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 16. apríl víða um heim með plötuútgáfu, tónleikum og ýmiss konar gleði. Af því tilefni hafa þeir Íbbagoggur  og Arnljótur splæst saman í sjö tommu vínylplötu, þar sem þeir deila hvor sinni hliðinni. Tónlistin var ráðgerð svo að plötuna er hægt að spila á 33&1/3 snúningum jafnt sem 45 snúningum.

Útgáfuhófið fer fram í listhúsinu Mengi við Óðinsgötu milli klukkan 14:00 og 16:00. Um takmarkað upplag er að ræða, en aðeins verða 19 eintök á boðstólnum. Platan er framleidd af vinyll.is og er gefin út á glærum vínyl. Auk útgáfu sjötommunar hyggst Íbbagoggur hengja upp nokkur myndverk sem hann þykist sárlega þurfa að losa sig við. Arnljótur ætlar einnig að spila stutt sett með nýrri tónlist. Svo verður platan látin rúlla og útgáfunni fagnað.

Íbbagoggur

Íbbagoggur

Íbbagoggur vinnur alla jafna með penna á pappír en gruflar líka í tónlist þegar hann fær leið á hinu. Hann hefur gefið út handfylli af myndasögum, haldið sýningar á teikningum sínum, sýnt vídeóverk og gefið út hljómplötur.

Arnljótur hefur gefið út fjórar plötur undir sínu eigin nafni.  Þar gerir hann raftónlist sem hefur þróast úr konkret rafi yfir í púlsandi sveimtónlist. Í dag kveður við nýjan og dekkri tón sem heyra má á útgáfu Arnljóts og Íbbagoggs.

Comments are closed.