HVÍTI GALDUR PRESSAÐUR Á BÓNUS PLÖTUR

0

Lagið Hvíti Galdur kemur út á Vínyl í dag.

Ekki alls fyrir löngu sendi hljómsveitin Geimfarar frá sér lagið „Hvíti Galdur” en rappararnir Birkir B og 7Berg ljá laginu rödd sína!. Byrkir B og 7Berg hafa komið víða við á viðburðarríkum ferli en þeir hafa verið leiðandi í Íslensku Hip Hop senunni svo árum skiptir.

Byrkir B gerði garðinn frægann með goðsagnakenndu hljómsveitinni Forgotten Lores og 7Berg hefur unnið með öllum helstu röppurum landsisn og sent frá sér  lög eins og „Reykjavík“ og „Kókaín“ svo fátt sé nefnt.

Í dag kemur lagið út á sjö tommu vínyl plötu á veg Bónus Plötur og verður því fagnað á Kaffi Vínyl í kvöld og byrja herlegheitin kl 19:00!

Bónus Plötur.

Albumm.is náði tali af Birkir B og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um útgáfuna, Forgottem Lores og framtíðina.

Af hverju sjö tommu vínyll og hvaða lög er að finna á plötunni?

Við 7berg og Geimfarar og singúllinn okkar Hvíti galdur erum á A -hlið annarrar útgáfu raðarinnar og Ljótur og Pétur með lagið HallóLaddi á B- hliðinni. Sú fyrsta hafði Skratta á A -hliðinni og Konsulat á B – hliðinni og hver útgáfa kemur aðeins í þrjátíu eintökum svo hér er ekki um neitt glópagull að ræða. Alvöru gersemar.

Birkir. B

Hvíti Galdur er killer lag, hvernig kom samstarfið við Geimfara til og er meira á döfinni?

Bófa Tófan og TY (Geimfarar) og 7berg eru OG´s í hip hop senunni og við höfum brallað ýmislegt saman í gegnum tíðina, bæði í músík og öðru. Lagið kom til einn góðan veðurdag þegar við hittumst allir fyrir tilviljun á Priki allra landsmanna. Ég hafði verið þar drykklanga stund og hripað þennan kórus niður þar sem ég sat. Ég lofaði piltunum að heyra og spurði hvort eitthvað væri varið í og stuttu seinna vorum við komnir í kjallarann til TY. Þar hann henti í þetta hlunka beat, við skrifuðum rímurnar og tókum svo upp. Einn af þessum stúdíógöldrum, hvítur galdur. Mér finnst hrikalega gaman að vinna með báðum þessum entitíum og ber mikla virðingu fyrir þeim, bæði sem listamönnum og manneskjum og á auðvelt með að sjá fyrir mér frekara samstarf.

Geimfarar.

Er ekki meira stöff a leiðinni frá þér og ef svo er hvað er það og hvenær er von á því?

Ég er á skólabekk svo ég er ekkert brjálæðislega virkur en það er eitthvað í gangi. Ég og Baddi (Class Bjé) erum að klára nýtt lag sem ætti að koma út undir merkjum Forgotten Lores á næstunni og við hlökkum til að deila því með þeim sem vilja heyra. Svo erum ég og Addi (Introbeats) alltaf með hliðarverkefnið okkar, Arkir. Við gerum ekki mörg lög en þau sem við gerum eru góð. Fyrir ekkert svo löngu síðan gerðum við lagið Orð, já með 7berg og erum einmitt á leiðinni í stúdíó í dag með sama manni að leggja lokahönd á annað lagið okkar saman og vonandi byrja á því þriðja. Fyrir utan rappið þá sömdum við Óli Tómas góðvinur minn og sálufélagi í samspili nokkur elektrónísk popplög saman og gerðum demó. Við ætlum að klára það almennilega þegar tíminn hægir aðeins á sér.

Hljómsveitin Forgotten Lores.

Hvenær kemur ný Forgotten Lores plata?

Við eigum nokkur lög á lager og einstaka sinnum gerum við ný en erum hinsvegar ekki að setja neina pressu á hvorn annann að gera plötu. Við tökum stundum gigg og það er alltaf ógeðslega gaman en eina svarið sem ég hef við spurningunni er aldrei að segja aldrei.

Eitthvað að lokum?

Það er fullt af geggjuðum hip hop artistum að gera frábæra hluti á Íslandi í dag. Farið út og styðjið það fólk, hlustið á hip hop þáttinn Kronik með my main man B Ruff og ef þið eruð að elska þetta listform, byrjið að skapa og takið þátt í byltingunni!

Skrifaðu ummæli