Hvít og svaka fansí: „Ég hef litlar áhyggjur af því að þetta verði leiðinlegt”

0

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr var að senda frá sér glæsilega vínylplötu en hún inniheldur fimm lög og ber heitið Næsta Skref. Daði hefur sungið sig inn í hjörtu landsmanna með lögum eins og „Hvað með það” og „Skiptir ekki máli” svo sumt sé nefnt. Næsta Skref er virkilega frábært í alla staði og er útlit plötunnar og auðvitað tónlistin til fyrirmyndar! Daði blæs til heljarinnar tónleika á Prikinu næstkomandi föstudagskvöld en eins og Daði orðar það þá hefur hann litlar áhyggjur af því að það verði leiðinlegt!

Albumm náði tali af Daða og svaraði hann nokkrum léttum spurningum um plötuna og tónleikana.


Nú er plata þín Næsta Skref komin út á vínyl. Afhverju langaði þig að gefa hana út á vínyl og hvað er það við vínylinn sem heillar þig?

Þetta er í annað skiptið sem ég gef út plötu á vínyl. Í fyrra skiptið var það platan Mixophrygian, hún kom út árið 2015 en þá var ég ennþá að koma fram undir nafninu Mixophrygian. Ástæðan fyrir því að ég er að gefa út vínyl er helst sú að ég vil að fólk geti átt raunverulegt eintak. Ég safna sjálfur vínylplötum og sá ekki tilgang í að gefa út geisladisk þar sem mér finnst það vera of líkt upplifuninni þegar maður notar streymisveitur. Þetta er stutt plata (bara 5 lög) svo hún verður á 10” vínyl með 45 rpm. Svo er platan sjálf hvít, svaka fansí.

Hvar getur fólk nálgast plötuna og kemur hún í takmörkuðu upplagi?

Til að byrja með verður hún einungis fáanleg hjá mér.(hafið samband við Daða á Facebook síðu hans)  Ég veit ekki hversu mikið hún á eftir að vera fáanleg í búðum, kannski sel ég hana eingöngu sjálfur? Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvernig það verður gert. Hún var gerð í 300 eintökum.

Þú ert að blása til heljarinnar tónleika á Prikinu föstudaginn 7. September. Á ekki að tjalda öllu til og við hverju má fólk búast?

Þetta verður vonandi bara eitt gott partý! Ég mun spila allskonar músík, bæði af plötunni og ekki. Ég veit sjálfur ekki alveg við hverju ég á að búast, hvernig tónlistin mun passa inni á Prikinu en ég hef litlar áhyggjur af því að það verði leiðinlegt. Ljósvaki mun sjá um upphitun, hann flýgur frá Berlín sama dag og brunar beint inn á Prik.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Ég er fluttur aftur út til Berlínar með Árnýju Fjólu. Hér ætla ég að vinna meira að tónlist. Ég er að vinna í nokkrum hlutum sem ég er mjög spenntur fyrir en það kemur allt í ljós með tímanum. Svo kem ég reglulega til Íslands til að spila á tónleikum.

Skrifaðu ummæli