HVERT LAG SEGIR SÍNA SÖGU UM TILFINNINGAR TÓNLISTARMANNSINS Í KJÖLFAR SAMBANDSSLITA

0

Urges er fyrsta sólóverkefni Ragnars Ólafssonar og inniheldur 12 lög. Hljómlistin á Urges er fremur lágstemmd, og hvert lag segir sína sögu um tilfinningar tónlistarmannsins í kjölfar sambandsslita. Ragnar sá sjálfur um upptökur, en nafni hans og samstarfsmaður Ragnar Sólberg hljóðblandaði. Fjölmargir tónlistarvinir Ragnars lögðu honum lið við gerð plötunnar, en hún var að mestu unnin í stúdíó E7 í Reykjavík.

Ragnar er nýkominn úr tveggja vikna tónleikaferð um Póland, þar sem hann flutti lögin af nýju plötunni sinni. Honum var mjög vel tekið af hljómleikagestum, og fékk mjög vinsamlega umfjöllun í pólskum fjölmiðlum. Alda Music sér um rafræna dreifingu Ugres, og er platan nú fáanleg í gegnum flestar veitur. Geisladisk má nálgast í gegnum Bandcampsíðu Ragnars

Ragnar ólst upp í Svíþjóð og var virkur í tónlistarsenunni í Gautaborg þar sem hann spilaði með tónlistarmönnum á borð við Jens Lekman og Olof Dreijer (The Knife). Eftir að hann fluttist til Íslands, 22 ára gamall, lærði hann raftónlistarsmíðar og klassískan söng við Tónlistarskóla Kópavogs, og hefur síðan fengist við tónsmíðar fyrir kvikmyndir og auglýsingar, verið trúbador, jazzpíanisti og þungarokkssöngvari. Ragnar hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi í meira en áratug, í hljómsveitum á borð við Árstíðir, Sign, Ask the Slave, Momentum o.fl.

Gerð hafa verið tónlistarmyndbönd við þrjú lög af plötunni, og hafa þau þegar fengið töluverða spilun á samfélagsmiðlum.

 

bandcamp.com

Skrifaðu ummæli