Hversdagslíf, draumar og þrár Reykjavíkurdætra

0

Fyrir skömmu sendu Reykjavíkurdætur frá sér brakandi ferskt “mixtape” sem ber heitið Shrimpcocktail. Sveitin hefur heldur betur verið á blússandi siglingu þetta árið og hreppti meðal annars MME Awards (Music Moves Europe Talent Awards) í flokki Rap/Hip Hop. Áður hafa Kaleo, Ásgeir Trausti og Of Monsters And Men en þetta er í fyrsta skipti sem íslendingar vinna í Rap/HipHop flonum! Shrimpcocktail er hreint út sagt alger snilld og það besta er að teipið verður ávallt betra með hverri hlustun. Albumm.is náði tali af Steinunni Jónsdóttur meðlim sveitarinnar og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum!  

 

Hvað er að frétta og hvað ertu að bralla akkúrat núna?

Ég er að hlusta á storytell upp í rúmi. Ég var á útgáfutónleikum hjá Röggu Holm í gær og er frekar sybbin.

Shrimpcocktail er komin út! Er hún búin að vera lengi í vinnslu og hvernig mundir þú lýsa henni í einni setningu?

Shrimpcocktail er mixteip með lögum sem að við erum búnar að gefa út síðan að platan okkar, RVKDTR, kom út árið 2016. Þannig það má segja að þessi kokteill hafi verið tvö ár í vinnslu og er semí enn í vinnslu því að við erum eftir að klára og droppa einu extra trakki sem er titillag teipsins. Ég myndi lýsa Rækjukokteilnum svona: Hversdagslífi, draumum og þrám Reykjavíkurdætra gerð skil í bundnu máli yfir banging beats.

Ef þú gætir tekið með þér eina manneskju (lífs eða liðinn) í stærsta rússíbana í heimi, hver yrði fyrir valinu og afhverju hún/hann?

Fyrsta manneskjan sem kom upp í hugann var bara hann Maggi (Gnúsi) minn. Gott að hafa hann við hliðiná sér. Annars ætti ég kannski að bjóða Sölku Vals frekar, hún er með rússíbana fettish á háu stigi.

Hvað veitir þér og RVKDTR innblástur og hvaða plötu færð þú aldrei leið á?

Á Shrimpcockteil sóttum við okkur innblástur í gott rapp og í raun bara upplifanir okkar og drauma. Ég myndi líka segja að við séum hvor annari mikill innblástur. Það er ómetanlegt að hafa þessar konur í kring um sig. Nú erum við að byrja að vinna að nýrri plötu og ég hugsa að fólkið sem kemur á tónleikana okkar og viðtökurnar sem að við erum búnar að fá á giggum í Evrópu í sumar verði mjög mikill innblástur fyrir okkur. Og bara það að við séum komnar á þann stað sem við erum á. Allt í einu virðast einhvernveginn allir vegir færir, og það gefur manni alveg frekar mikið búst og löngun í að gera nýja tónlist og gera hana vel.

Platan sem að ég fæ aldrei leið á er Ellý og Vilhjálmur syngja jólalög… Kannski því maður hlustar bara á hana í desember. Er það ekki viðeigandi núna? Annars koma alveg frekar margar plötur upp í hugann, alveg frá Bítlunum til Beyonce! Maður fær ekki leið á góðum plötum held ég.

 

Eru Reykjavíkurdætur að spila eitthvað á næstunni?

Við erum búnar að spila mikið á þessu ári bæði hérlendis og erlendis og þá með þetta efni. Ég myndi segja að við séum að loka Shrimpcockteil kaflanum með þessari útgáfu og útgáfutónleikum sem verða 20.desember á Húrra.

Nú erum við að byrja að vinna í nýrri plötu sem að kemur út í haust og við búum til nýtt show í kringum hana fyrir vorið! Þannig um að gera að koma á Húrra á fimmtudaginn og hlusta á okkur rappa Rækjukokteilinn, mögulega í síðasta sinn í bili!

Spennandi tímar og ný plata væntanleg frá Reykjavíkurdætrum.

Hvað er framundan hjá Reykjavíkurdætrum og eitthvað að lokum?

Næst á dagskrá eru téðir útgáfutónleikar 20.des og stúdíóvinna. Við vorum að vinna evrópsk tónlistarverðlaun og munum taka á móti þeim við hátíðlega athöfn í Hollandi um miðjan janúar og í kjölfarið komum við fram á Eurosonic tónlistarhátíðinni. Það eru bara spennandi tímar framundan, ný plata, nýtt show, við höldum áfram að túra evrópsk festivöl næsta sumar og stefnum svo á okkar eigin „headliner“ tónleikaferð í lok sumars/næsta haust.

Skrifaðu ummæli