„Hugmyndir í tónlist kveikja meira í mér en flest annað“

0

Hallur Már hefur komið víða við á viðburðarríkum ferli. Tónlistin hefur ávallt skipað stórt hlutverk í lífi hans en hann var að senda frá sér stuttskífuna Gullöldin. Hallur plokkaði bassann í hljómsveitinni Leaves en sveitin náði gríðarlegum vinsældum um víðan völl! Gullöldin er fyrsta platan í seríu af þremur en næstu tvær koma út seinna á árinu. Hallur segir að ekki sé mikil tenging á milli tónlistarinnar sem hann semur í dag og tónlist Leaves en hann lýsir tónlistinni sem minimalískri og sækadelískri einbúa-lounge-i!

Albumm.is náði tali af Halli og svaraði hann nokkrum spurningum um lífið, tónlistina og auðvitað nýju plötuna.


Hvernig hefur kappinn það og hvað er verið að bralla akkúrat núna?

Ég er bara þrusugóður, þriggja barna faðir í Mosó. Nýorðinn fertugur. Akkúrat núna var ég að tækla Arnar Loga 7 ára og Erlu Kamillu 8 ára í rúmið, skólinn er að byrja og rútínan að taka við sem er gott. Núna hef ég smá stund til að kíkja á nýja trommuheilann minn sem ég fékk í afmælisgjöf um daginn.

Er Gullöldin búin að vera lengi í vinnslu og hvernig mundir þú lýsa plötunni í þrem orðum?

Gullöldin er hugsuð sem stuttskífa eða ep-plata eins og það var kallað í gamla daga. Hún er sú fyrsta í seríu af þremur og næstu tvær koma út á árinu en númer tvö kemur í vor. Hugmyndin var samt alltaf að gera stóra plötu – það breyttist bara á leiðinni. Fyrst ég er bara einn að garfa í þessu þá einhvern veginn var rökrétt að skipta þessu upp í minni einingar. Eftir því sem ég kemst lengra með verkefnið finnst mér þetta form á útgáfunni alltaf virka betur og betur. Bæði nær maður að skapa samhengi, sem mér finnst ótrúlega mikilvægt í músík, og þá er athygli fólks svo dreifð að ég hugsa að það sé sniðugt að gefa út litlar útgáfur og sjá hvernig fólk tekur í það, öfugt við að setja rosa mikið púður í eina bombu þar sem allt er undir. Þannig fæ ég líka að föndra fleiri plötu-kóver sem er líka skemmtilegt.

Í heildina er ég búinn að vera að vinna markvisst í þessu í rúm tvö ár en elsta dótið sem verður í seríunni er að nálgast tuttugu ára aldur. Þannig að sumt af þessu hefur verið að gerjast með mér í mjög langan tíma. Eiginlega alltof langan tíma.

Þrjú orð til að lýsa Gullöldinni… minimalískt, sækadelískt einbúa-lounge (það er orð sko).

Þú varst meðlimur í hljómsveitinni Leaves. Er einhver tenging á milli nýju plötunnar og Leaves?

Tengingin við Leaves er satt að segja ekki mikil fyrir utan það að ég spila á sama bassann í báðum verkefnunum. Að því sögðu mun ég alltaf búa að því að hafa unnið og skapað með strákunum. Sérstaklega náttúrulega Arnari og þegar ég hugsa út í það þá er ýmislegt sem ég er að gera núna sem kallast líklega að einhverju leyti á við það sem við vorum að gera í bláupphafi, þegar við vorum bara tveir að leigja saman á Freyjugötunni og áður en við helltum okkur út í spilamennsku og ferðalög. Svo mótaði það mig líka mikið sem tónlistarmann að spila í allan þennan tíma með Nóa trommara. Hann hefur mjög sérstakan stíl sem ég reyndi að fylgja með minni spilamennsku. Heilt yfir eru líkindin þó ekki mikil myndi ég halda.

Hverskonar tónlist hlustar þú á í dag og hvað veitir þér innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Í dag hlusta ég mest á tónlist í heyrnartólum og svona blanda af elektróník og spilaðri músík finnst mér mjög spennandi og virka vel í Sennheiserunum mínum. Margt af því sem Nicolas Jaar, Nils Frahm og Jon Hopkins gera finnst mér áhugavert. Ef ég er í vafa um hvað ég eigi að hlusta á þá virkar seinni tíma Radiohead alltaf, Flaming Lips líka og mikið af plötunum hans Brian Eno. Antonio Carlos Jobim og David Axelrod eru líka í miklu uppáhaldi frá því að þegar þeir voru upp á sitt besta í kringum 1970. Ég verð eiginlega líka að minnast á Shuggie Otis og Mulatu Astetke líka. Það er bara svo mikið til!

Hugmyndir í tónlist kveikja meira í mér en flest annað og ég er fljótur að missa áhugann ef mér finnst fólk vera að fara augljósar leiðir. Það sem mér finnst til dæmis áhugavert að elta í sækadelíu er ekki þessi ímynd sem margir hafa af frjálsum ástum, litríkum mynstrum, kommúnum og hljóðfæraspuna. Heldur er það þessi algjöra grunnhugmynd um að glata sjálfinu eða egóinu. Einfalt grunnstef í sækadelíunni en einhversstaðar á leiðinni varð það því miður viðskila við hippakynslóðina. Svona hugmyndum er hægt að skila í tónlist án þess að það sé einhver sögumaður að segja manni það og þegar það tekst verður einhver galdur til sem trompar allt í mínum bókum. I wanna hold your hand er reyndar líka alveg eitthvað sem virkar. Þetta er flókið!

Ef þú gætir farið með hverjum sem er (lífs eða liðinn) út að borða hver yrði fyrir valinu og afhverju hún/hann?

Þetta er vandasamt en ég segi samt Jim Carrey. Í fyrsta lagi er hann náttúrulega grínséní eins og þau gerast best. Svo sýnist mér hann líka vera að dansa á þessari hárfínu línu sem skilur stundum að snilligáfu og brjálæði og hefur alltaf heillað mig. Ég er viss um að það yrði algjörlega mögnuð kvöldstund sem gæti farið hvernig sem er.

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi?

Án þess að ætli að loka alveg fyrir það þá finnst mér það í raun mjög ólíklegt. Stundum fór maður í gegnum lamandi stress og kvíða fyrir tónleika í gamla daga og þar var hlutverk mitt meira að segja frekar einfalt! En maður á náttúrulega aldrei að segja aldrei. Þetta er á köflum frekar flókin músík og ég þyrfti þá allavega einhverja aðstoð við flutninginn, þannig að bara það er þröskuldur.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Nú er ég bara að vinna í kafla tvö í seríunni og það tekur smá tíma enda geri ég tónlistina mikið seint á kvöldin og um helgar. Þess fyrir utan vinn ég líka mjög mikið og er með stóra fjölskyldu þannig að það er bara miklu meira en nóg að gera!

Skrifaðu ummæli