HUGMYNDIN VARÐ TIL Á KRÚTTLEGUM FUNDI

0

Björt Sigfinnsdóttir.

Lista og menningarhátíðin LungA fer fram á Seyðisfirði dagana 16. – 23. Júlí næstkomandi og er dagskráin sko ekki af verri endanum í ár! Hátíðin var fyrst haldin árið 2000 en hugmyndin að hátíðinni kviknaði í heimahúsi á litlum krúttlegum fundi.

Albumm.is náði tali af Björt Sigfinnsdóttur einum af aðstandendum hátíðarinnar og svaraði hún nokkrum spurningum um þessa stórskemmtilegu og forvitnilegu hátíð!


Hvernig hátíð er LungA og hvenær fór hún fyrst fram?

Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar kemur að því að lýsa LungA hátíðinni. Hún er fyrst og síðast miðuð að þeim sem hafa áhuga á listum og menningu. Ungu fólki, bæði ungu að aldri en einnig ungu í anda. Hún er hugsuð til að virkja og kveikja neista, vekja áhuga á menningu og listum, skapa, njóta, vera og að eignast nýja vini. Hátíðin getur breytt þér, opnar glugga út í heim og innávið.

Hátíðin er gömul sál en jafnframt bara 18 ára unglingur (haldin fyrst 2000). Hún er djúp og hún er skemmtileg í senn. LungA dansar upp á borðum en ræðir á heimspekilegum nótum við dansfélagann um samfélagsleg málefni og hlutverk hins skapandi einstaklings í því samhengi á meðan hún slammar við tóna nýjasta grasrótar bandsins í senunni!

„Við drógum inn fleiri vini og saman bjuggum við til LungA hátíðina“ – Björt

Hvernig kviknaði hugmyndin að hátíðinni og hverjir standa að henni?

Hugmyndin varð til á krúttlegum fundi heima hjá mér með mömmu minni og vinum mínum, ég var þá 15 ára. Ég var í mótþróa og hótaði að flytja frá Seyðisfirði til Egilsstaðar en við ákváðum frekar að gera eitthvað spennandi. Við áttum það nefnilega öll sameiginlegt að vera mjög hugmyndarík og skapandi en við fengum ekki útrás fyrir sköpunargleðina. Það vantaði að opna þennan glugga, skapa grundvöll fyrir nýjum leiðum og nálgun í skapandi starfi. Við drógum inn fleiri vini og saman bjuggum við til LungA hátíðina. Mamma hélt utan um praktíska hlutann, fjármálin og þannig og hélt okkur við efnið.

Nú hefur hátíðin svo stækkað og dafnað, já og þroskast. Þörfin og áhuginn var meiri en okkur óraði fyrir og í dag komast færri að en vilja! Í dag erum við sjö manna hópur sem að sjá um að umgjörðin sé til staðar. Sjö einstaklingar héðan og þaðan, með mismunandi reynslu og áhuga.

„Í fyrsta sinn býður LungA fólki að kaupa „Vinaband LungA” sem er hannað af Guðmundi Úlfarssyni, hönnuði hátíðarinnar.“ – Björt

Rögnvaldur Skúli „Skelfir,“ myndlistarmaður, graffari og umboðsmaður Grísalappalísu sér um hljómsveita bókanir og umgjörðina fyrir tónleikana. Hilmar Guðjónsson – Kaospilot, VJ og stofnandi Plan B festivalsins sér um alla listviðburðina yfir vikuna og LungA LABið með mér og Óla. Sesselja Hlín, fatahönnuður og stofnandi List í ljósi hátíðarinnar sér um listasmiðjurnar og allskonar praktíska hluti ásamt Celiu Harrison, annar stofnandi list í ljósi hátíðarinnar auk þess að vera stofnandi Art in the Dark hátíðarinnar í Nýja sjálandi. Hún er einnig menntuð rýmis hönnuður. Ólafur Daði, BA í myndlist og tónlist, viðburðarstjóri Oddson, sér um LungA LABið og markaðsmál hátíðarinnar, Aðalheiður Borgþórsdóttir (Mamma LungA) stofnandi hátíðarinnar og fjármálastjóri og að lokum ég, Björt Sigfinns, Kaospilot og söngkona, stofnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar og er því með puttana í nánast öllu.

Þar fyrir utan erum ótæmandi listi yfir frábært fólk sem stendur vaktina með okkur í allskyns verkefnum í eldhúsi, þrifum, reddingum, gæslu og svo mætti lengi lengi lengi telja. Kaupstaðurinn og bæjarbúar styðja við bakið á okkur og væri þetta ekki gerlegt annars!

„Hátíðin er fyrir alla þá sem hafa áhuga á list og menningu.“ – Björt

Hátíðin fer fram á Seyðisfirði, af hverju þar og fyrir hvern er hátíðin?

Ástæðan fyrir staðarvalinu er einfaldlega sú að við bjuggum hér. Líka vegna þess að hún byrjaði sem viðburður í dagskrá sem hét „listahátíðin Á Seyði”. Það voru listviðburðir sem fóru fram víðsvegar um bæinn yfir sumartímann. LungA óx og dafnaði vel, hún varð fljótlega sjálfstæð hátíð í hátíðinni og er núna orðin mun stærri heldur en listahátíðin „Á Seyði“ varð nokkurn tímann.

Hátíðin er fyrir alla þá sem hafa áhuga á list og menningu. Við fókuserum sérstaklega á aldurshópinn 18 – 30 ára en það eru allir velkomnir að koma og njóta!

Hvenær fer hátíðin fram og við hverju má fólk búast í ár?

Hátíðin fer fram 16. – 23. Júlí í ár. Dagskráin er stútfull af frábærum listviðburðum svo fólk má búa sig undir algjöra sprengju fyrir öll skilningarvitin og tilfinningaskalinn verður þaninn til hins ítrasta. Fólk þarf að hafa hugrekki og kjark til þess að geta notið í botn. Ég er mjög spennt fyrir LungA LAB / fræðslustofu LungA, sem er nýjung í ár og sá hluti hátíðarinnar sem að býður upp á “talks” og umræður við listamenn og fræðinga út frá þemainu “egó”. Einnig er ég ofboðslega spennt fyrir öllum listviðburðunum sem eru á dagskrá, en ungir listamenn leggja gjarnan leið sína til Seyðisfjarðar þessa viku og LungA teimið gerir allt sem hægt er til þess að finna fyrir þau rými og að aðstoða við uppsetningu á verkum, gjörningum, tónleikum og sýningum. Eitt af því sem ekki má missa ef er lokasýning listasmiðjanna þar sem um 130 ungmenni ásamt leiðbeinendum sínum setja á svið stórkostlega sýningu sem fram fer út um allan bæ.

Eitthvað að lokum?

Í fyrsta sinn býður LungA fólki að kaupa „Vinaband LungA” sem er hannað af Guðmundi Úlfarssyni, hönnuði hátíðarinnar. Vinabandið er mjög fallegt og eigulegt, það er ekki aðgangsgefandi en færir gott karma og sköpunargleði til þess sem það ber. Hægt er að kaupa bandið á tix.is og á staðnum, það kostar litlar 2000 ISK. Þetta er skemmtileg og ódýr leið til þess að styrkja hátíðina. Ekki ósvipað og crowd funding, margt smátt gerir eitt stórt og svo er það með gull glimmeri!

Að lokum vil ég bara óska öllum til hamingju með LungA og óska þess að sem flestir geti notið í botn.

http://lunga.is/

Skrifaðu ummæli