„Hugmyndin er að endurgera Barfly og láta Rúrik Gísla leika aðalhlutverkið”

0

Hljómsveitin Jeff Who sló rækilega í gegn með fyrstu plötu sinni Death Before Disco sem kom út árið 2005. Lagið Barfly náði gríðarlegum vinsældum og segja má að þetta árið hafi hvert mannsbarn sungið með, enda afar grípandi lag! Jeff Who-liðar eru að koma saman aftur og kemur sveitin fram á tvennum tónleikum en sögur segja að jafnvel sé von á glænýju efni!

Albumm.is náði tali af sveitinni og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um endurkomuna, tónleikana og hvað er framundan svo sumt sé nefnt.  


Hvernig er stemningin í hópnum og og hvað kom til að þið komið saman aftur?

Stemningin er mjög góð, okkur hlakkar mikið til að spila. Það var engin sérstök ástæða fyrir að koma saman aftur, Baddi og Þorri voru í tjilli að fá sér bjór saman og þá sagði Þorri „ég held að mig langi að spila aftur“ og Baddi var til. Svo var talað við hina í bandinu og allir voru til.

Hvenær kom sveitin saman seinas?

Við munum ekki hvenær við komum saman síðast. Við vorum með nokkra tónleika í USA í desember 2011 og við munum ekki hvort við spiluðum eitthvað á Íslandi eftir það. En það skiptir ekki öllu máli, það er allavega orðið allt of langt síðan síðast!

Er von á nýju efni frá Jeff Who og hvaða lag er skemmtilegast að flytja á tónleikum?

Við höfum bara ekki ákveðið það, við erum aðallega að fókusera á þessa tónleika og æfa upp gömlu lögin. Við bættum líka nokkrum lögum inn á setlistann sem við tókum eiginlega aldrei live. Við erum allir sammála um að Great Escape sé skemmtilegast að spila en auðvitað er náttúrulega frábært að spila Barfly í magnaðri stemningu þar sem allir syngja með!

Við hverju má fólk búast á tónleikunum og lofið þið ekki trylltri stemningu?

Fólk má búast við Jeff who? betri en nokkru sinni. Við munum halda spilagleðinni sem hefur alltaf verið hjá okkur og jafnvel taka 1-2 cover lög sem við tókum á sínum tíma.

Hvað er á döfinni hjá ykkur og eitthvað að lokum?

Það kom upp hugmynd utan úr bæ að endurgera Barfly myndbandið og láta Rúrik Gísla leika aðalhlutverkið. Það er ekkert verri hugmynd en hver önnur

Jeff Who kemur fram á Græna Hattinum á Akureyri 21. September og í Bæjarbíói í Hafnarfirði 22. September. Hægt er að nálgast miða á Midi.is og á Graenihatturinn.is

Skrifaðu ummæli