HUGLEIKUR DAGSSON

0
hulli 7

Ljósmynd: Anna Maggý

Hugleikur Dagsson er einn fremsti grínisti okkar íslendinga. Hugleikur er myndasöguhöfundur, leikstjóri og uppistandari svo fátt sé nefnt, en hann hefur komið víða við á viðburðaríkum ferli. Hugleikur var að senda frá sér bækurnar „Hvað með börnin“ og „Mamma.“ Hugleikur er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hann okkur frá hvernig hann byrjaði að semja myndasögur, hvernig hann varð uppistandari og hvað er framundan svo fátt sé nefnt. 


Hvenær kviknaði áhugi þinn á teiknimyndasögum og hvenær byrjaðir þú að teikna?

Ég byrjaði að teikna áður en ég man eftir mér. Teiknaði þá gjarnan risaeðlur. Fyrstu myndasöguna teiknaði ég þegar ég var sex ára og hét hún „Risaeðlueyjan“ sem fjallaði um strandaglóp á risaeðlueyju. Hún endaði illa ef ég man rétt. Ég var undir áhrifum frá King Kong, held ég. En helstu áhrifavaldar í myndasögum voru „Daredevil“ eftir Frank Miller og „Adele et la Béte“ eða „Birna og ófreskjan“ eins og hún hét á íslensku. Ég komst í þessi meistaraverk svona fimm ára. Frekar skerí stöff fyrir svona ung börn, en ég elskaði þetta.

hulli 3

Ætlaðir þú þér alltaf að verða myndasöguhöfundur, kom þessi velgengi þér á óvart og mundirðu segja að flestir taki vel í þinn húmor?

Ég ætlaði alltaf að verða myndasöguhöfundur. En ég var ekkert að auglýsa það því fullorðið fólk tók þeirri yfirlýsingu með hinu klassíska svari „það er enginn peningur í því.” Og það er eiginlega enginn peningur í því, bara rétt fyrir leigu. Velgengnin kom mér hvorki á óvart né átti ég von á henni, ég var bara glaður að þetta var að virka og hélt bara áfram. Er enn á þeirri braut að halda bara áfram þangað til þetta hættir að virka.

Nú voru bækurnar „Hvað Með Börnin“ og „Mamma“ að koma út. Hvað geturðu sagt okkur um þessar bækur og voru þær lengi í vinnslu?

„Hvað með Börnin“ var unnin á svipaðan hátt og allar okkar bækur. Bara samansafn af skrítlum sem mér datt í hug á ákveðnu tímabili plús fullt sem ég samdi á síðustu stundu fyrir skil. Svona helmingur bókarinnar var saminn á fjórum árum og restin á tveimur þremur dögum.
„Mamma“ var hugmynd sem poppaði upp vorið 2014. Ég var með annan heimsendi í huga fyrir „Endi 4“ en teiknarinn sem ætlaður var þeirri sögu var upptekinn. Ég var þá með tvær aðrar sögur í hausnum fyrir tvo aðra teiknara, en þeir voru líka uppteknir. Þá hafði ég í örvæntingu samband við Pétur Antonsson sem ég var viss um að væri að drukkna í vinnu, en viti menn, hann var geim. Þannig ég þurfti að kokka upp sögu fyrir hann á no time, þar sem örlar fyrir japönskum áhrifum í stíl péturs ákvað ég að semja Kaiju sögu (svona Godzilla type skrímsla sögu). Ég hugsaði sem svo að ekki væri búið að láta smábarn vera Kaiju (það er samt örugglega búið að gera það einhverntímann). Hugmyndin var spennandi og sagan skrifaði sig sjálf.

hulli 6

Ljósmynd: Anna Maggý

Hvað veitir þér innblástur fyrir þínar myndasögur og hvernig myndirðu lýsa þínum stíl?

Allt veitir mér innblástur. Þessa dagana er það helst facebook rifrildi og Shakespeare. Mínum teiknistíl er hægt að lýsa sem minimalískum Þ.e.a.s. stílnum sem ég er þekktastur fyrir. Ég þori ekki að greina frásagnarstílinn að svo stöddu, því ég er að gera svo mismunandi hluti með brandarana, sjónvarpsþættina og myndasögurnar. En nördalegt væri orð sem gæti gengið yfir þetta allt.

hulli 2

Þú hefur vakið athygli útum allan heim, er eitthvað eitt land sem kann að meta þínar myndasögur betur en önnur?

Ég veit ekki með allan heim, en allavega í Austur-Evrópu og Finnlandi. Þetta er frekar óþekkt underground cult í Bretlandi og Bandaríkjunum, en ég á ennþá langt í Arnald Indriða status. Finnland er samt aðal kaupandinn og er ég semi seleb þar.

hulli 4

Úr bókinni „Mamma“

Hvernig kom það til að þú byrjaðir á að vera með uppistand og hvaða uppistandarar eru í uppáhaldi hjá þér?

Svona mánuði áður en ég fór í uppistand var ég búinn að ákveða mig að það væri eitt sem ég myndi aldrei gera og það væri að standa uppá sviði og reyna að vera sniðugur. Tilhugsunin er martröð. En svo hvatti Ari frændi minn Eldjárn mig til að prófa og ég prófaði og nú ert þetta það skemmtilegasta sem ég geri. Ég á marga uppáhalds grínista, en mig langar helst að nefna Maria Bamford, Sarah Silverman, Daniel Sloss og Ron Funches.

Áttu þér uppáhalds brandara sem þú hefur gert?

Uppáhalds brandararnir mínir eru þeir sem eru aulalegastir eða skrítnastir. Einn brandari þar sem orðunum niðurgangur og undanrenna er ruglað saman er í sérstaklegu uppáhaldi. Hann meikar varla sens enda byggður á einkahúmar míns og bróður míns.

hulli 5

Úr bókinni „Mamma“

Nú ert þú mikill kvikmyndaáhugamaður áttu þér uppáhalds kvikmynd og afhverju hún?

Get ekki valið eina, en í topp þremur hefur hvað lengst verið Brazil, Akira og Mad Max 2 og eru þær allar dystópískar framtíðarmyndir. Einhverra hluta vegna tala heimsendamyndir til mín, þess vegna er ég að gera „Enda seríuna.“ Þetta eru í raun mínar heimsendamyndir.

hulli 1

Ef þú gætir farið aftur í tímann, hvaða tími yrði fyrir valinu og hvað myndirðu gera þar?

Fara aftur í tímann? Mig langar miklu frekar að fara fram í tímann! En ætli ég fari ekki þá bara frekar aftarlega og tékki á risaeðlunum … kannski taka eitt tvö egg með mér heim.

Hvað er framundan hjá þér og hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Ég er að skrifa „Endi 5“ og leikstýra annari seríu af „Hulla.“ Ég er að undirbúa mig undir að gera leikna sketsa fyrir netið og svo er ég stanslaust í uppistandinu. Ég er að vinna í því að teikna minna og semja meira. Ég hef á síðustu árum komist að því að mér finnst mun skemmtilegra að semja sögur og brandara en að teikna þá. Ég mun þess vegna ekki taka að mér fleiri utanaðkomandi teikniverkefni. Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að gera spítukallabrandara þegar þeir koma til mín, en annars mun ég héðan í frá einbeita mér að öðru.

Fylgist með Hugleiki Dagssyni á:

http://www.dagsson.com/

https://www.facebook.com/Hugleikur-Dagsson

Comments are closed.