HÓPUR ÍSLENSKRA TÓNLISTARMANNA FLYTJA LÖG QUEENS OF THE STONE AGE

0

Í ár eru 20 ár liðin frá því hljómsveitin Queens of The Stone Age var stofnuð en sveitin starfaði undir nafninu, Gamma Ray, árið 1996. Vegna deilna við hið samnefnda þýska kraftmálmsband frá Hamburg, var ákveðið að endurskíra hljómsveitina. Segir sagan að hópnum hafi áskotnast nafnið vegna sérkennilegrar hegðunar í hljóðveri en sjálfir segja þeir að mun betra sé að vera drottningar steinaldar en konungar. Því drottningarnar eru víst þær sem fá athygli kvenna á meðan konungar heyja orrustur óralangt í burtu frá kvenskaranum.

Queens of The Stone Age, leidd af hinum litríka og fjölhæfa, Joshua Homme (fyrrum meðlimi eyðimerkurrokksveitarinnar, Kyuss), hefur gefið út sex breiðskífur á þessum tveimur áratugum en sú sjöunda, Villains, er væntanleg þann 25.ágúst nk. Þá hefur sveitin gengið í gegnum miklar mannabreytingar yfir árin og alls hafa um tveir tugir tónlistarmanna tekið þátt í að skapa hljóðheim Queens of The Stone Age. Ber þar helst að nefna söngvarann Mark Lanegan, bassaleikarann Nick Olivieri og Íslandsvininn góðkunna, Dave Grohl. Hefur sveitin þá haldið staka tónleika hér á landi (árið 2005) en einn meðlimur sveitarinnar, Mark Lanegan, lék svo tvenna tónleika fyrir fullri Fríkirkju árið 2013.

Af tilefni starfsafmælis sveitarinnar, útgáfu nýrrar plötu og af mikilli aðdáun ætlar hópur íslenskra tónlistarmanna að koma saman og flytja allt það besta sem sveitin hefur fært fram allt til dagsins í dag á Gauknum þann 21.október nk.

Hljómsveitina skipta:

Birkir Rafn Gíslason – Gítar, Daníel Hjálmtýsson – Söngur, gítar, perc, Hálfdán Árnason – Bassi, raddir, Helgi Rúnar Gunnarsson – Gítar, raddir, Ragnar Ólafsson – Söngur, hljómborð, gítar og Skúli Gíslason – Trommur.

Miðasala fer fram á Tix.is og fer miðasala vel af stað.

Facebook viðburðinn má sjá hér

Skrifaðu ummæli