„Home er eitt af þessum lögum sem varð bara allt í einu til“

0

Ljósmynd: Anna Maggý.

Tónlistarmaðurinn Birgir Steinn Stefánsson eða einfaldlega Birgir eins og hann er kallaður fór hratt á toppinn eftir að hann sendi frá sér lagið „Can You Feel It.” Birgir slær ekki slöku við en hann var að senda frá sér nýtt lag, önnur EP plata í vændum og aldrei að vita nema seglið verður dregið upp og Birgir fer víða um heim með tónlistina sína.


Þú varst að senda frá þér nýtt lag sem nefnist „Home.“ Um hvað er lagið og er það búið að vera lengi í vinnslu?

Home er eitt af þessum lögum sem varð bara allt í einu til, a.m.k. beinagrindin að því. Þetta byrjaði allt með trommu/klapp lúppu sem ég gerði hérna heima, mér fannst lúppan svo grípandi að ég fór svo að semja hljóma ofan á hana og þar fór boltinn að rúlla. Lagið fjallar um einstakling sem þráir að snúa aftur heim. Svo getur hver og einn túlkað það á sinn hátt.

Hvar sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og hvernig mundir þú lýsa nýja laginu í einni setningu?

Ég fæ innblástur úr mörgum áttum. Ég hef verið að hlusta mikið á nýjasta nýtt í popptónlist erlendis og reyni svona að blanda því við þá tónlist sem hefur fylgt mér mest alla tíð. Það er erfitt að lýsa laginu í einni setningu, ég ætla að leyfa hlustendum að svara þeirri spurningu, haha.

Ljósmynd: Anna Maggý.

Lagið „Can you feel it” fékk gríðarlega góðar viðtökur, ertu að fá einhverja athygli erlendis frá og hvert viltu stefna með þína tónlist?

Ég er nokkuð sáttur með þær viðtökur sem „Can You Feel It“ fékk, bæði hér heima og erlendis. Lagið hefur fengið góða spilun á Spotify víða um heiminn sem mér þykir ánægjulegt og ég sé velgengni þess lags sem tækifæri til þess að byggja ofan á það og reyna að ná til sem flestra. Ég held áfram að gera það sem mér þykir gaman að gera, og ef að fólk er að fíla það, hvort sem það er hérna heima eða erlendis, þá er það frábært.

Er von á plötu frá þér og hvaða þrjár plötur getur þú hlustað á aftur og aftur og aftur?

Það er önnur EP í bígerð og það gengur nokkuð vel með hana. Ég held að ég verði að segja Viva La Vida; Death and all his friends með Coldplay. Fyrsta plata James Bay er líka gríðarlega góð.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Ég held áfram að vinna í nýrri EP ásamt því að reyna koma eins mikið fram og hægt er. Ég verð m.a. á Secret Solstice í sumar með fulla tösku af nýju efni og lofa mikilli skemmtun.

Skrifaðu ummæli