HLUSTANDINN VELUR EIGIN TÚLKUN Á INNTAKI LAGSINS

0

Grúska Babúska sendir frá sér lagið „Princess?“ og er það hluti af fimm smáskífuseríu sem Grúska Babúska sendir frá sér, en þess má geta að fyrsta lagið „Refurinn“ kom út í vor og frumsýndi Albumm tónlistarmyndbandið og fjallaði um útgáfuna. Öll lögin komu upphaflega til sögunnar í listamannaresidensíu í nýaldarbænum Glastonbury fyrir tæpu ári síðan. Eftir frekari útsetningar og tónsmíðar vann sveitin lokatilfærslur og hljóðblöndun í samstarfi við hljóðtækninn Stefán Örn Gunnlaugsson.

Í laginu „Princess?“ leikur spurningarmerkið mikilvægt hlutverk þar sem hlustandi velur í raun eigin túlkun á inntaki lagsins.

„Okkar meining er að ekki sé allt sem sýnist og er leikið með margslungið eðli sögupersónu. Það sem í fyrstu virðist einfalt felur oftar en ekki í sér fleiri víddir og dýpri merkingu, en lagið er þó fyrst og fremst tækifæri fyrir okkur til að hamra synthana, merja trommurnar og sleppa okkur á sviðinu. Kannski ekki svo flókið eftir allt saman“ segir Íris og hlær.

Fyrstu taktarnir gefa til kynna laumulega tóna, en áður en langt um líður smeygir öllu þyngri og taktafastari hljómur sér inn.

„Við grínumst oft með það að þó við lítum kannski út fyrir að vera krúttsveit þegar við stígum á svið með alla klútana og rauðmálaðar kinnar, þá séum við innst inni þungarokks-sveit. Þessi punktur er allavega lykilatriði er varðar hljóðblöndun á sviði og sviðsframkomu. Það er um að gera að hafa þetta allt saman svolítið groddaralegt.“

Lagið „Princess?“ má finna á öllum helstu veitum s.s. Spotify. Næsta smáskífa er væntanleg á haustmánuðum.

Skrifaðu ummæli