HLJÓMSVEITIN ONE WEEK WONDER NOTUÐU GAMLAN KÍNVERSKAN HÁLOFTABÚNING Í NÝJA MYNDBANDIÐ SITT

0

one week wonder 2 (1)

Hljómsveitin One Week Wonder frumsýndi sitt fyrsta myndband að loknum tónleikum í Bíó Paradís þann 28.júní.

Tríóið er skipað af Magnúsi Benedikti Sigurðssyni, Árna Guðjónssyni og Helga Kristjánssyni. Strákarnir hafa þekkst í all nokkur ár og spilað saman í öðrum verkefnum áður en að þeir stofnuðu hljómsveitina One Week Wonder árið 2014.

í kjölfarið flúðu þeir Ísland og fluttu til Berlínar til að læra hljóðupptöku og hljóðvinnslu, en leiddust námið og ákváðu þess í stað að taka upp plötu.

Þeir voru undir miklum áhrifum frá Pink Floyd, Air og kvikmyndatónskáldinu Ennio Morricone. Þessir áhrifavaldar sem og fyrrum reynsla strákanna blandaðist svo úr varð þeirra eigin persónulegi stíll. Þó hljómsveitin hafi upphaflega verið stofnuð í Reykjavík, þá var platan tekin upp í Berlín og svo endanlega hljóðblönduð í Barcelona.

one week wonder

Rödd Magnúsar grípur hlustandann með sínum hlýju, hjartnæmu tónum sem blandast vel við gamaldags tón hljómsveitarinnar sem minnir helst á sveitir frá áttunda áratugnum eða gamlar kúrekamyndir. Tríóið veitir skarpann en á sama tíma dáleiðandi flutning

„Við erum miklir aðdáendur af gömlum græjum og gömlum upptökubúnaði. Ekkert inni í þessu hljóðveri var minna en 20 ára gamalt, fyrir utan kannski kaffivélina“, segir Árni og hlær.

Notuðust strákarnir við 24-rása upptökuvél sem átti sinn þátt í að skapa tón plötunnar. Stundum var hún angurvær, öðrum stundum pólitísk og reyndist góður förunautur í þessu ferðalagi strákanna.

Fyrsti smellurinn ,,Mars“ segir sögu manns sem er tilbúinn að leggja lífið að veði og ferðast til Mars til þess að öðlast ódauðlega frægð og komast í sögubækurnar. Tónlistarmyndbandið var tekið upp á íslandi og leikstýrt af Baldvini Albertssyni.

„Vanalega sér maður ekki trommara fara með aðalrulluna í myndböndum, en ég var bara sá eini sem passaði í geimbúninginn og tel ég þetta mikinn sigur fyrir okkur trommarana,“ segir Helgi hróðugur á svip.

Búningurinn, sem er gamall kínverskur háloftabúningur var keyptur til landsins frá kínverska hernum og nær myndbandið að fanga vel anda lagsins.

Myndbandið var skotið í bókasafni Norræna hússins og setti byggingin sem hönnuð var af Alvar Aalto mikinn svip á myndbandið.

Myndbandið var framleitt af Tjarnargötunni sem hefur gert mörg tónlistarmyndbönd undanfarin misseri við góðar undirtektir.

Smáskífan, sem telur fimm lög mun svo koma út í byrjun ágúst næstkomandi.

Comments are closed.