HLJÓMSVEITIN EVA

0

Cover_antexta

Hljómsveitin Eva er tveggja kvenna hljómsveit. Sigríður Eir og Vala Höskuldsdóttir eru leikhúslistakonur sem áttu sér þann draum stærstan að fá að semja og syngja lög.  Þær stofnuðu Hljómsveitina Evu árið 2012, meðan þær voru saman í bekk í Listaháskóla Íslands. Þær semja og flytja lög um hversdagslega hluti úr reynsluheimi sínum, svo sem fegurð viðbeina, og sjarma sjálfstæðra kvenna. Hljómsveitin Eva hlaut Grímutilnefningu 2014 fyrir tónlistina í Gullna Hliðinu og gefur nú út sína fyrstu plötu. 


Þessi fyrsta plata sveitarinnar „Nóg til frammi“ var tekin upp um verslunarmannahelgina á Karlstöðum við Berufjörð og gott ef áhrif sólarinnar, hafsins og fjallanna í þessu dásamlega umhverfi munu ekki bara berast í gegnum hljómflutningstækin og heyrast á plötunni.

Nokkuð erfitt er að festa fingur á það hverrar tegundar þessi tónlist er nákvæmlega en ætli það mætti ekki segja að þetta væri „easy listening“ kántrískotið femínistapönk með þjóðlaga ívafi. Sem þýðir að í rauninni er þetta alveg hard-core popp.

Svavar Pétur Eysteinsson, upptökustjóri plötunnar eða Prins Póló eins og hann er víða þekktur lét þessi orð falla um plötuna: „Hljómsveitin Eva er tilfinninga- og hæfileikabúnt. Leiftrandi húmor, hárbeitt ádeila og blæðandi tilfinningar. Ég vissi aldrei hvort ég ætti að hlæja eða gráta“

 

 

Comments are closed.